Fótbolti

Liverpool ekki unnið leik án Mane en Bayern með nýtt met með Mane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane hefur smollið inn í lið Bayern München sem er óstöðvandi með hann innan borðs.
Sadio Mane hefur smollið inn í lið Bayern München sem er óstöðvandi með hann innan borðs. EPA-EFE/SASCHA STEINBACH

Sadio Mane er ekki lengur leikmaður Liverpool og margir telja sjá það á sóknarleik liðsins. Nýja lið Senegalans leikur aftur á móti við hvern sinn fingur.

Bayern München keypti Mane frá Liverpool í sumar og ekkert lið hefur byrjað Bundesligu tímabil betur í markaskorun en einmitt Bayern í ár.

Bæjarar hafa skorað fimmtán mörk í fyrstu þremur leikjunum eða fimm mörk að meðaltali í leik. Liðið er ekki aðeins með fullt hús stiga heldur einnig plús fjórtán í markatölu (15-1).

Mane er einn af markahæstu mönnum þýsku deildarinnar með þrjú mörk í þessum þremur leikjum.

Tveir af þessum leikjum Bayern hafa verið á útivelli og þar hafa þeir unnið stórsigra, fyrst 6-1 sigur á Eintracht Frankfurt og svo 7-0 sigur á VfL Bochum. Mane hefur skorað í báðum þessum leikjum.

Liverpool liðið lék aftur á móti sinn þriðja deildarleik í gær og hefur enn ekki náð að fagna sigri. Liðið hefur tapað sjö stigum í fyrstu þremur leikjunum og er bara með tvö stig í sextánda sæti deildarinnar.

Þetta er versta byrjun liðsins á tímabili undir stjórn Jürgen Klopp og eftir tapið í gær er liðið meira að segja fyrir neðan Manchester United.

Aston Villa, Manchester United og Bournemouth hafa öll tapað tveimur leikjum og eru með -3 eða verra en þau eru samt ofar en Liverpool í töflunni.

Það er flestum ljóst að Liverpool saknar pressuskrímslsins Mane en hann kemur ekki aftur og því þurfa lærisveinar Klopp að fara að taka sig saman í andlitinu og fara að vinna leiki ef þeir ætla að keppa um efstu sætin á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×