Innherji

Orku­veitan freistar þess að fá al­þjóð­legt fjár­magn inn í rekstur Car­b­fix

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. Aðsend

Orkuveita Reykjavíkur mun hefja undirbúning að hlutafjármögnun dótturfélagsins Carbfix sem gæti numið um 1,4 milljörðum króna. Fjöldi alþjóðlegra fjárfesta, þar á meðal Credit Suisse og og fjárfestingaarmur norska ríkisolíufélagsins Equinor, hefur lýst yfir áhuga á því að koma að uppbyggingu íslenska nýsköpunarfyrirtækisins.

Borgarráð samþykkti í síðustu viku að veita Orkuveitu Reykjavíkur heimild til að stofna nýtt hlutafélag utan um rekstur Carbfix. Frá árinu 2019 hefur verið haldið utan um reksturinn í opinberu hlutafélagi, Carbfix ohf., sem útilokar að aðrir fjárfestar en opinberir aðilar geti lagt félaginu til áhættufé.

„Ljóst er að næsti kafli í þróun Carbfix og einstakra verkefna kallar á tugi milljarða íslenskra króna. Það er langt umfram þær fjárhæðir sem réttlætanlegt væri að rynnu úr borgarsjóði eða rekstri Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir í umsögn rýnihóps borgarráðs.

Tækni Carbfix til kolefnisbindingar felur í sér að koltvísýringur er leystur upp í vatni og honum svo dælt djúpt niður í berglög þar sem hann steinrennur á innan við tveimur árum. Tæknin hefur minnkað CO2 útblástur Hellisheiðarvirkjunar um þriðjung og sparað Orkuveitunni um 13 milljarða króna.

Þá hlaut Carbfix nýlega 16 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til uppbyggingar á móttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda Terminal sem á að rísa í Straumsvík. Stöðin er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og er áætlað að starfsemi hennar hefjist um mitt ár 2026 en nái fullum afköstum árið 2032. Þegar stöðin nær fullum afköstum mun því sem jafngildir 65 prósentum af heildarlosun Íslands 2019 eða allt að þremur milljónum tonna af koltvísýringi vera fargað á hverju ári.

Fram kemur í greinargerð Orkuveitunnar að fáist heimild til stofnunar á nýju hlutafélagi verði hafinn undirbúningur að fjármögnun Carbfix en horft er til þess að um 10 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 1,4 milljarða króna, af nýju hlutafé verði selt fyrir um 20 prósenta hlut. Samkvæmt því er Carbfix verðmetið á 50 milljónir dala, eða sem nemur 7 milljörðum króna.

Við undirbúning á stofnun nýja hlutafélagsins var alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Morgan Stanley var fengið til að þróa viðskiptaáætlun Carbfix og vinna að ítarlegu áhættumati í samvinnu við íslenska fjármálafyrirtækið Arctica Finance.

Á komandi árum má því gera ráð fyrir því að Carbfix hf. verði ekki lengur í meirihlutaeigu og því ekki dótturfélag innan samstæðu OR

Stjórn Orkuveitunnar bendir í greinargerð sinni á að fjöldi alþjóðlegra fjárfesta hafi þegar lýst áhuga á því að koma að verkefninu og nefnir sem dæmi loftslagssjóð Microsoft, alþjóðlega fjármálarisann Credit Suisse, norska ríkisolíufélagið Equinor, japönsku fyrirtækjasamsteypuna Sumitomo og franska orkufyrirtækið EDF ásamt sérhæfðum fjárfestingasjóðum.

„Með tímanum mun frekari fjármögnunar verða þörf. Er þá gert ráð fyrir sölu á nýju hlutafé og þynningu á hlutum Carbfix ohf. og annarra hluthafa sem því nemur. Á komandi árum má því gera ráð fyrir því að Carbfix hf. verði ekki lengur í meirihlutaeigu og því ekki dótturfélag innan samstæðu OR.“

Væntingar um jákvæðan rekstrarhagnað frá árinu 2024

Í minnisblaði sem ráðgjafarfyrirtækið Summa útbjó fyrir Reykjavíkurborg er bent á að alþjóðlegir fjárfestar myndu ekki einungis koma með fjármagn inn í Carbfix hf. í formi hlutafjár heldur líka umtalsverða þekkingu á sviði viðskipta og tækni tengda losun gróðurhúsalofttegunda.

„Flest félögin hér að ofan eru með margar fjárfestingar í verkefnum sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda og því væri möguleg samlegð og samvinna milli fyrirtækja sem sami aðili fjárfestir í. Með þessu gæti átt sér stað aukin verðmætasköpun fyrir Carbfix-tæknina,“ segir í minnisblaðinu.

Jafnframt kemur fram í minnisblaðinu að samkvæmt væntri sviðsmynd í viðskiptaáætlun Carbfix til næstu 10 ára, 2022 til 2031, sé gert ráð fyrir að fyrirtækið þurfi á umtalsverðum fjármunum að halda a.m.k. fram til ársins 2025. Samkvæmt væntri sviðsmynd verður félagið með neikvæða EBITDA fram til ársins 2024 og uppsafnaða neikvæða EBITDA fram til ársins 2027. 

Ef litið er til lakari sviðsmyndar kemur fram að félagið er með neikvæða EBITDA fram til ársins 2027 og uppsöfnuð neikvæð EBITDA er til staðar út spátímabilið, eða fram yfir ár 2031.

„Fjármagna þarf þá neikvæðu EBITDA sem mun safnast upp á meðan verið er að byggja upp félagið, þetta gæti numið um 1.150 milljónum. Að auki liggur fyrir í áætlun félagsins um að fjárfesta þarf í verkefnum fyrir um 2.066 milljónir á næstu fimm árum. Áætluð fjárþörf gæti því verið 2500 til 3200 milljónir á næstu fimm árum miðað við mismunandi sviðsmyndir til að standa undir fjárfestingum og rekstri,“ segir í minnisblaði Summu.

Nýja félagið, Carbfix hf., mun ekki sjálft fjármagna stærri verkefni, eins og t.d. Coda verkefnið í Straumsvík , heldur er gert ráð fyrir að stofnuð verði sjálfstæð félög (e. Special Purpose Vehicle) sem verða í eigu samstarfsaðila Carbfix og verða starfrækt án nokkurrar ábyrgðartengingar við OR.

„Gert er ráð fyrir að ytri aðilar myndu fjármagna ný kolefnisförgunarverkefni í gegnum verkefnafélögin auk þess sem þau myndu sækja fjármögnunarstyrki til sjóða og stofnana í þeim tilvikum þar sem slíkt á við. Framlag Carbfix væri í formi hugvits og vinnuframlags gegn ákveðinni hlutdeild í hlutafé verkefnafélags,“ segir í greinargerð OR.

Stjórnkerfið tregt til að hleypa fjárfestum að borðinu

Þegar tillaga OR um stofnun hlutafélagsins var til meðferðar hjá Reykjavíkurborg voru uppi efasemdir innan stjórnkerfisins að æskilegt væri að fá einkafjármagn að verkefninu. Orkuveitan væri fær um að fjármagna uppbygginguna. 

Í umsögn sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar er vísað til ályktunar Summu um að fjárþörf Carbfix til ársins 2025 geti verið á bilinu 2,6 til 3,2 milljarðar króna.

„Ein höfuðröksemdin fyrir stofnun Carbfix hf. virðist vera sú að laða að áhættufjárfesta til að taka að sér að leysa fjármagnsþörf verkefnisins að reka, þróa og fjárfesta í Carbfix-tækninni. Samkvæmt viðskiptaáætlun Carbfix má ætla að þriðjungur ætlaðrar fjárþarfar sé vegna CODA verkefnisins en að aðra fjárþörf félagsins megi rekja til starfsemi sem er nú þegar innan Carbfix ohf., þ.m.t. launakostnaður núverandi starfsmanna,“ segir í umsögninni. 

„Ef gengið er út frá því að Carbfix ohf. sé fyrst og fremst að vinna að þróun og rannsóknum vegna kjarnastarfsemi OR þá er fyllilega réttlætanlegt að sú starfsemi sé áfram í Carbfix ohf. Á mælikvarða OR er ekki um að ræða óyfirstíganlegar fjárhæðir ef um væri að ræða nauðsynlegar fjárfestingar vegna kjarnastarfsemi OR.“

Lagði sviðsstjórinn til að Reykjavíkurborg veitti Orkuveitunni heimild til að tryggja Carbfix fjármagn til rekstrar og fjárfestinga í samræmi við fyrirliggjandi viðskiptaáætlun. 

„Lögð verði áhersla á hlutverk Carbfix ohf. sem leiðandi aðila við áframhaldandi þróun og rekstur Carbfix-tækninnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×