Fótbolti

Þurfti að hafna myndatöku eftir að leikur var hafinn

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnaði marki sínu gegn Sheriff í gær, í 2-0 sigri.
Cristiano Ronaldo fagnaði marki sínu gegn Sheriff í gær, í 2-0 sigri. Getty/Oleg Bilsagaev

Kona sem hugðist fá að taka mynd af sér með Cristiano Ronaldo í miðjum leik Sheriff og Manchester United í Evrópudeildinni í fótbolta í gærkvöld hafði ekki erindi sem erfiði.

Konan var sjúkrastarfsmaður á vellinum en ákvað að sæta færis þegar að leikmenn gengu til búningsklefa í hálfleik og reyna að fá af sér mynd með portúgölsku ofurstjörnunni.

Ronaldo er sjálfsagt ýmsu vanur í þessum efnum en þó er óvenjulegt að knattspyrnumenn séu beðnir um mynd þegar öll einbeiting er á leikinn sem þeir eru að spila. Hann veit reyndar líka að þeir skora sem að þora en sýndi konunni strax með látbragði að myndataka kæmi ekki til greina, eins og sjá má hér að neðan.

Annar starfsmaður á vellinum kom strax í kjölfarið og vísaði konunni í burtu á meðan að leikmenn United gengu áfram inn til búningsklefa.

Ronaldo skoraði úr víti í leiknum, í 2-0 sigri United, og var hrósað af knattspyrnustjóranum Erik Ten Hag. Þrátt fyrir allt tal um að Ronaldo hafi viljað losna frá United í sumar og vilji enn fara þá segir Ten Hag að ekkert vanti upp á að Ronaldo leggi sig allan fram fyrir félagið. Hann hafi misst af undirbúningstímabilinu og þurfi tíma til að komast í sitt besta ástand en að þá muni hann skora fleiri mörk.

„Maður gat séð hvað hann er nálægt þessu og þegar hann verður hraustari mun hann klára [þessi færi]. Ég tel að hann leggi sig allan fram í þetta verkefni og allan fram fyrir þetta lið, og sé með af öllum þunga,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×