Fótbolti

Frítt á leik Vals í dag og tugir milljóna í boði

Sindri Sverrisson skrifar
Það er mikið undir hjá Valskonum á Hlíðarenda í dag.
Það er mikið undir hjá Valskonum á Hlíðarenda í dag. VÍSIR/VILHELM

Óhætt er að segja að mikið sé undir hjá Valskonum í einvíginu við tékkneska liðið Slavia Prag sem hefst á Hlíðarenda í dag klukkan 17. Ókeypis aðgangur er að leiknum.

Íslandsmeistarar Vals freista þess að komast í sjálfa riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, og framlengja þannig keppnistímabil sitt fram að jólum hið minnsta, en til þess þarf liðið að slá út Slavia Prag í tveggja leikja einvígi. Seinni leikurinn er í Tékklandi eftir viku.

Það að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar færir Valskonum ekki bara sex leiki við þrjú af bestu liðum Evrópu því í húfi eru tugir og jafnvel yfir hundrað milljónir króna.

Ef að Valur vinnur einvígið við Slavia Prag fær liðið nefnilega samtals 500.000 evrur í verðlaunafé, eða sem samsvarar yfir 70 milljónum króna. Ef að Valur tapar einvíginu fær félagið samt tæpar 20 milljónir króna.

Áður hafði Valur tryggt sér rúmar ellefu milljónir króna fyrir að vinna andstæðinga sína í fyrri umferð undankeppninnar.

Valskonur eru í sömu sporum og Breiðablik var í fyrir ári síðan, þegar í fyrsta sinn var keppt samkvæmt nýju fyrirkomulagi í Meistaradeild kvenna með riðlakeppni fram í desember. Blikar komust í riðlakeppnina en urðu að sætta sig við aðeins eitt stig, úr leikjum við Real Madrid, PSG og Kharkiv.

Ef að Valur kemst í riðlakeppnina getur liðið bætt við sig milljónum með því að ná sigrum og jafnteflum þar. Fyrir sigur fást 50.000 evrur, jafnvirði um 7 milljóna króna, og fyrir jafntefli fást 17.000 evrur eða um 2,4 milljónir króna.

Það eru svo að sjálfsögðu enn hærri upphæðir í boði fyrir að komast lengra en í riðlakeppnina og geta Evrópumeistararnir sem krýndir verða næsta vor að hámarki aflað sér 1,4 milljón evra, eða jafnvirði 200 milljóna króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×