Fótbolti

Svava Rós á skotskónum en Rosengård í kjör­stöðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún Arnarsdóttir kom engum vörnum við þegar Svava Rós Guðmundsdóttir kom Brann yfir í kvöld.
Guðrún Arnarsdóttir kom engum vörnum við þegar Svava Rós Guðmundsdóttir kom Brann yfir í kvöld. Brann

Íslendingalið Brann og Rosengård gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði mark Brann en Guðrún Arnarsdóttir stóð vaktina í vörn gestanna. Þá var Selma Sól Magnúsdóttir í byrjunarliði Rosenborg sem fékk Real Madríd í heimsókn.

Brann er á toppnum í Noregi á meðan Rosengård er á toppnum í Svíþjóð og því mátti búast við hörkuleik. Þá var Svava Rós upp á topp hjá heimaliðinu og því ljóst að hún og Guðrún myndu eigast við oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í leik kvöldsins.

Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum má segja að Svava Rós hafi haft betur. Hún fékk sendingu frá Tuva Hansen í gegnum vörn gestanna og þrumaði boltanum í þaknetið. Staðan 1-0 Brann í vil og það ætlaði allt um koll að keyra á heimavelli liðsins.

Forystan entist allt fram á 78. mínútu þegar hin danska Olivia Holdt jafnaði metin fyrir gestina frá Svíþjóð. Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur kvöldsins. Það er því Rosengård sem er í kjörstöðu fyrir síðari leikinn sem fram fer á heimavelli liðsins að viku liðinni.

Á meðan Svava Rós og Guðrún áttust við í Bergen í Noregi var Selma Rós að glíma við stórlið Real Madríd í Þrándheimi. Selma Sól byrjaði leikinn á miðju Rosenborg en norska liðið sá aldrei til sólar í kvöld. Real var 2-0 yfir í hálfleik og skoruðu gestirnir þriðja markið snemma í síðari hálfleik.

Selma Sól nældi sér í gult spjald á 58. mínútu og var tekin af velli þegar tæplega stundarfjórðungur lifði leiks en leiknum lauk með 3-0 sigri gestanna frá Madríd. Segja má því að Real sé komið með annan fótinn í riðlakeppnina en það er erfitt að sjá Rosenborg vinna með meira en fjögurra marka mun í Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×