Bretland endaði í öðru sæti í keppninni í ár með lagið Spaceman sem Sam Ryder söng og var því boðið að halda keppnina á næsta ári. Upphaflega voru borgirnar Birmingham, Leeds, Manchester, Newcastle og Sheffield einnig mögulegir staðir.
Síðast þegar keppnin var haldin í Bretlandi, árið 1998, fór hún fram í National Indoor leikvanginum í Birmingham. Í Glasgow yrði keppnin haldin á OVO Hydro leikvanginum en í Liverpool væri það M&S Bank leikvangurinn. OVO Hydro leikvangurinn var notaður sem sögusvið í Will Farrell kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire.

Staðurinn sem verður fyrir valinu mun taka á móti fjölda gesta og fá mikla athygli. Borgirnar sem komu til greina voru metnar og skoðaðar út frá nokkrum punktum:
- Hvort að staðurinn bjóði upp á tónleikahöll sem gæti rúmað keppnina.
- Hvort að staðurinn geti skuldbundið sig í að halda viðburðinn, meðal annars með fjárframlagi.
- Hversu sterk menningin er.
- Hversu vel staðurinn samræmist gildum BBC, meðal annars með það að leiðarljósi að bæta hagkerfið í Bretlandi.
- Staðurinn þarf að geta tekið á móti fjölmiðlum og gestum hátíðarinnar.
Aðstandendur keppninnar í Bretlandi segja að viðburðurinn muni einnig heiðra Úkraínu og menningu þeirra. Þetta er í fimmta sinn sem Bretar taka það að sér að halda keppnina þrátt fyrir að hafa ekki sigrað hana árið áður.