Í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að rannsóknin sé í fullum gangi og miði vel. Fjórir voru handteknir vegna málsins aðfaranótt mánudags og síðdegis þann dag gerð krafa um vikulangt gæsluvarðhald yfir tveimur konum og einkum karlmanni.
Samkvæmt heimildum fréttastofa er önnur konan eiginkona hins látna. Hin tvö eru vinir konunnar; konan búsett á Ólafsfirði en karlmaðurinn búsettur í Reykjavík en í heimsókn fyrir norðan.
Tvö kærðu úrskurðinn
Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði öll þrjú í gæsluvarðhald á mánudag og var tekin ákvörðun um að flytja þau suður í gæsluvarðhaldsfangelsið á Hólmsheiði. Í tilkynningunni kemur fram að tvö hinna þriggja hafi kært gæsluvarðhaldið til til Landsréttar. Rétturinn hafi staðfest varðhald yfir öðrum aðilanum en ekki hinum. Viðkomandi hafi verið látið laus.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur konan verið látin laus sem bjó í húsinu við Ólafsveg þar sem karlmaðurinn lést.
Lögregla segir að skýrslutökur yfir sakborningunum hafa staðið yfir í gær og í dag. Þá hafi réttarkrufning farið fram á hinum látna. Nokkurra vikna bið geti verið eftir niðurstöðum.
Ýmis atriði sögð óljós
Rannsókn lögreglu er sögð miða að því að leiða í ljós hvað átti sér stað aðfaranótt mánudagsins. Enn séu ýmsir þættir málsins óljósir. Rannsókn beinist meðal annars að því að upplýsa þá.
„Ekki er hægt að upplýsa frekar um einstaka rannsóknaraðgerðir á þessu stigi en allra rannsóknaraðferða er beitt sem geta varpað ljósi á málið,“ segir í tilkynningunni.