Þrettán ráðherrar koma úr röðum Moderaterna, fimm úr röðum Kristilegra demókrata og sömuleiðis fimm úr röðum Frjálslyndra.
Ebba Busch, formaður Kristilegra demókrata, verður viðskiptaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra. Tobias Billström, þingmaður Moderaterna fyrrverandi ráðherra innflytjendamála (2006 til 2014) verður utanríkisráðherra og Johan Pehrson, formaður Frjálslyndra verður ráðherra málefna vinnumarkaðs og aðlögunar.

Þá vekur það athygli að hin 26 ára Romina Pormoukhtari frá Frjálslyndum verður ráðherra umhverfis- og loftslagsmála og verður þar með yngsti ráðherrann í sögu Svíþjóðar.
Sænska þingið staðfesti í gær Kristersson í embætti forsætisráðherra og mun hann leiða þriggja flokka ríkisstjórn Moderaterna, Kristilegra demókrata og Frjálslyndra. Svíþjóðardemókratar, sem er nú stærsti flokkurinn á hægri væng stjórnmálanna, mun verja hana vantrausti. Alls greiddu 176 þingmenn atkvæði með tillögunni, en 173 gegn.
Kristersson sagði meðal annars að til stæði að koma upp sérstöku þjóðaröryggisráði, að gripið verði til aðgerða til að stemma stigu við tíðar skotárásir í landinu og starfsemi glæpagengja. Þá sagði hann ríkisstjórnina einnig munu gera breytingar á stefnu landsins í orkumálum, dómskerfinu, lífeyrismálum og á vinnumarkaði.