Greint er frá þessu í bréfi sem Steinn Jóhannsson, rektor MH, sendi nemendum skólans í gærkvöldi. Mbl.is birtir bréfið.
Líkt og greint var frá hér á Vísi varð hálfgerð bylting í MH þar sem nemendur rituðu nafn meintra gerenda sinna með varalit á spegla skólans. Með því vildu nemendurnir vekja athygli á aðgerðarleysi skólayfirvalda þegar kemur að kynferðisbrotum.
Á speglum á baðherbergi skólans var búið að skrifa nöfn sex nemenda sem sakaðir voru um kynferðisbrot. Í pósti rektors segir að þrjú mál séu sem stendur í ferli á grundvelli tilkynninga um atvik utan skólans.
Þá hafa nokkrar kvartanir um einelti verið sendar skólanum frá einstaklingum á þeim grundvelli að nöfn þeirra hafi að ósekju verið rituð á speglana. Munu þau mál fara í ferli og hefur skólinn óskað eftir því að utanaðkomandi teymi taki þau til meðferðar.
„Menntaskólinn við Hamrahlíð mun eftir sem áður sinna skyldu sinni til að hlúa að öllum nemendum. Í kjölfar atburða síðustu vikna hefur skólinn þegar hafið vinnu við að uppfæra áætlanir um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Þá fagnar skólinn því að stjórnvöld og hagsmunasamtök nemenda hafi sett af stað vinnu sem miðar að því að bæta úrvinnslu slíkra mála,“ segir í tilkynningunni.