Hin tólf ára gamla Ísabella Von og móðir hennar Sædís Hrönn Samúelsdóttir sögðu frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær hvernig Ísabella hefur undanfarið verið beitt hrottalegu einelti af samnemendum sínum með þeim afleiðingum að Ísabella reyndi að svipta sig lífi.
Ísabella er í 8. bekk í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði og telur á fjórða tug jafnaldra sinna hafa tekið þátt í eineltinu. Birtingarmynd eineltisins hefur ekki bara verið líkamlegt ofbeldi heldur skelfileg skilaboð á samfélagsmiðlum.
„Okkur var náttúrulega verulega brugðið að heyra af þessu máli í gær, þessu ofbeldi sem hefur átt sér stað í kjölfar eineltis,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Bærinn tjái sig ekki um einstaka mál en þau fari í viðeigandi ferli og skólarnir séu allir með viðbragðsáætlanir í málum sem þessum. Í máli Ísabellu hefur eineltið staðið yfir frá því að hún byrjaði í Hraunvallaskóla í fyrra.
Er þetta jafnvel merki um að eineltismál sitji á hakanum í kerfinu?
„Ég get nú ekki sagt það, ég held eins og ég segi að allir séu að gera sitt besta í því en sérfræðingar sgeja að einelti og ofbeldi meðal ungs fólks sé að aukas,“ segir Rósa.
Fullorðnir þurfi að fara að líta í eigin barm.
„Hvernig erum við að koma fram opinberlega, í ræðu og riti og tala við hvert annað? Þetta sjá börnin, við erum fyrirmyndirnar og þau sjá hvernig margir skrifa á samfélagsmiðlum. Orðræðan sem við erum oft að tala um er oft orðin ansi hörð og óvægin í samfélaginu.“
Blásið var til söfnunar fyrir Ísabellu Von í gærkvöldi, svo þær mæðgur kæmust til Flórída að heimsækja ættingja. Á aðeins nokkrum klukkustundum hafði safnast nóg fyrir þær mæðgur til að fljúga út, með hjálp almennings og hafnfirskra fyrirtækja. Frænka Ísabellu, sem blés til söfnunarinnar, skrifaði á Facebook að þakklæti væri efst í huga og von um að umræðan vekti fólk til vitundar.