Erlent

For­veri Kína­for­seta leiddur á brott af flokks­þinginu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hu Jintao, standandi, átti einhver orðaskipti við Xi Jinping, sitjandi, er hann var leiddur á brott.
Hu Jintao, standandi, átti einhver orðaskipti við Xi Jinping, sitjandi, er hann var leiddur á brott. AP Photo/Andy Wong

Hu Jintao, forveri núverandi forseta Kína í starfi, var leiddur út af lokaathöfn flokksþings kínverska Kommúnistaflokksins. Engar skýringar hafa borist á því af hverju forsetinn fyrrverandi var leiddur úr salnum.

Hinn 79 ára Jintao var forseti Kína á árunum 2003 til 2013. Hefur hann verið viðstaddur flokksþing flokksins þar sem búist er við að samþykkt verði að Xi Jinping, núverandi forseti Kína og arftaki Jintao, verði áfram við völd.

Jintao sat við hlið Jinping upp á sviði flokksþingsins er hann var leiddur á brott af tveimur starfsmönnum. Í frétt BBC segir að Jintao hafi sagt eitthvað við Jinping sem hafi svo kinkað kolli.

Stephen McDonnel, fréttaritari BBC í Kína segir að myndband af atvikinu hafi vakið upp miklar spurningar en afar fátt sé um svör frá kínverskum yfirvöldum.

Segir hann að tvær mögulegar skýringar séu á atvikinu. Mögulega hafi heimsbyggðin þarna orðið vitni að valdaspili Jinping sem hafi þarna viljað að allir myndu sjá að hann og hann einn væri við völd. Hin skýringin sé sú að mögulega glími Jintao við heilsufarsvandamál.


Tengdar fréttir

Ó­kyrrð í Kína eftir eins manns mót­mæli

Kínversk stjórnvöld hafa undanfarna daga unnið dag og nótt að því að ritskoða umræður á samfélagsmiðlum um mótmæli sem fóru fram í Peking í gær. Mótmælendur hafa krafist þess að Xi Jinping, leiðtoga landsins, verði komið frá völdum en aðeins nokkrir dagar eru í að þjóðþing kommúnistaflokksins fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×