Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 32-34 | Ás­geir byrjar á naumu tapi gegn Ís­lands­meisturunum

Andri Már Eggertsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson átti góðan leik í liði Vals.
Benedikt Gunnar Óskarsson átti góðan leik í liði Vals. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Haukar töpuðu sínum fyrsta leik undir stjórn Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar en liðið beið lægri hlut gegn Íslandsmeisturum Vals í Olís deild karla í handbolta í kvöld.

Magnús Óli Magnússon braut ísinn í leiknum en í næstu sókn fékk hann högg þegar hann var í skoti. Magnús Óli fór út af eftir höggið og í hans stað kom Tryggvi Garðar Jónsson sem hafði verið mikið í umræðunni í síðustu viku þar sem hann hefur lítið sem ekkert spilað á tímabilinu.

Tryggvi tók mikið til sín í fyrri hálfleik þar sem hann spilaði bæði í vörn og sókn. Tryggvi Garðar skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik úr sex skotum.

Valur átti fyrsta áhlaup leiksins. Haukar voru tveimur mörkum yfir en þá tóku gestirnir yfir og gerðu fjögur mörk í röð.

Haukar gerðu afar vel í að jafna leikinn í 16-16 þegar fyrri hálfleikur var við það að klárast. Valur fékk hins vegar lokasóknina sem átti eftir að reynast dýr fyrir heimamenn. Stefán Rafn Sigmarsson fékk beint rautt spjald fyrir að fara í andlitið á Agnari Smára Jónssyni. Hárréttur dómur og afar klaufalegt hjá Stefáni þar sem Agnar var að sækja upp í stúku.

Einum fleiri síðustu sekúndurnar náði Valur að koma boltanum á línuna þar sem Tjörvi Týr Gíslason gerði síðasta mark fyrri hálfleiks og kom Val marki yfir 16-17.

Haukar létu það ekki á sig fá að hafa misst Stefán Rafn með rautt spjald sem hafði skorað fimm mörk úr jafn mörgum skotum í fyrri hálfleik. 

Seinni hálfleikur var stál í stál þar sem liðin skiptust á mörkum. Haukar komust marki yfir þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Gestirnir söfnuðu tveggja mínútna brottvísum sem hafði áhrif á leikinn. 

Undir lokin voru Haukar að elta skottið á Val og meistararnir kláruðu leikinn á endanum 32-34. 

Af hverju vann Valur?

Þetta var hörkuleikur og það mátti ekki mikið út af bregða svo Haukar hefðu fengið hið minnsta stig út úr þessum leik. Valur var sterkari á svellinu undir lokin þar sem Björgvin Páll varði meðal annars nokkra bolta undir lok síðari hálfleiks.

Hverjir stóðu upp úr?

Allir leikmenn Vals sem tóku þátt í sóknarleiknum skoruðu í kvöld. Valur fékk mörk frá tólf mismunandi leikmönnum og þar af gerðu fjórir leikmenn fjögur mörk. 

Björgvin Páll Gústavsson var venju samkvæmt flottur í markinu þar sem hann varði 17 skot og endaði með 35 prósent markvörslu.

Hornamenn Hauka fengu að njóta sín í kvöld. Stefán Rafn Sigmarsson gerði 5 mörk úr jafn mörgum skotum. Brynjólfur Snær Brynjólfsson var markahæstur á vellinum með 8 mörk og einnig gerði Össur Haraldsson 2 mörk úr 3 skotum.

Hvað gekk illa?

Haukar fóru afar ill að ráði sínu á gríðarlega mikilvægu augnabliki í leiknum.  Heimir Óli minnkaði forskot Vals niður í eitt mark. Matas Pranckevicius varði skot Þorgils og þegar Haukar gátu jafnað leikinn þá tapaði Ólafur Ægir boltanum og Stiven Tobar skoraði úr hraðaupphlaupi eftir það var leikurinn gott sem búinn.

Stefán Rafn fékk afar klaufalegt rautt spjald þegar hann fór í andlitið á Agnari Smára sem var ekki á leið í árás á markið heldur var hann bara að sækja upp í stúku og Stefán fór klaufalega í andlitið á honum.

Hvað gerist næst?

Valur mætir Stjörnunni í Origo-höllinni næsta föstudag klukkan 19:30.

Á laugardaginn mætast Haukar og ÍBV á Ásvöllum klukkan 17:30.

Ásgeir Örn: Ætluðum að svara genginu undanfarið 

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var nokkuð brattur eftir leikSkjáskot Stöð 2

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var nokkuð brattur eftir naumt tap gegn Val.

„Það var skýrt að ég vildi alvöru leik hérna í kvöld og mínir leikmenn myndu svara genginu undanfarið og ég var ánægður með mitt lið í kvöld,“ sagði Ásgeir Örn og hélt áfram.

„Við ætluðum að vera þéttir og vera að berjast. Mér fannst við sýna okkar fólki að við værum til í þetta verkefni. Valur var betri en við í dag og keyrði á okkur. Björgvin Páll varði mikilvæga bolta og við náðum ekki að svara seinni bylgju Vals.“

Stefán Rafn Sigmarsson, leikmaður Hauka, fékk beint rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks sem var blóðtaka fyrir Hauka.

„Mér fannst það ekki rautt spjald þá en mér hefur verið sagt að þetta var rautt og ég treysti dómurunum algjörlega fyrir þessu.“

„Stefán var búinn að vera frábær og möguleikar mínir urðu takmarkaðri á að rótera liðinu í seinni hálfleik en svona er boltinn.“

Valur gerði betur á lokamínútunum sem skilaði tveggja marka sigri og Ásgeir hrósaði Björgvini Páli, markmanni Vals, fyrir sinn leik.

„Björgvin Páll tók mikilvæga bolta og þeir keyrðu beint inn í hjartað og við vorum orðnir þreyttir í lokin,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira