Fjallað var um Rauðhóla í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Um land allt en örlög gervigíganna hafa löngum verið tekin sem dæmi um eitt fyrsta stóra umhverfisslysið á Íslandi.
Það hefur verið viðtekin skoðun að breski herinn hafi eyðilagt Rauðhólana þegar hann fór að leggja Reykjavíkurflugvöll. Þessi saga er ekki allskostar rétt, miðað við athugun Friðþórs Eydals, sem ritað hefur bækur um umsvif hersins á stríðsárunum.

„Það var þegar hafin efnistaka hérna áður en herinn byrjaði á sínum framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll,“ segir Friðþór. Borgin hafi áður verið byrjuð að nýta efni úr hólunum í gatnagerð.
„En efnið í Reykjavíkurflugvöll kom úr Öskjuhlíðinni, þar sem sprengt var út grjót, og úr sandgryfjunum í Fífuhvammi í Kópavogi. Og svo fylliefni héðan úr Rauðhólunum.“

Friðþór segir að herinn hafi skráð það sem kom úr Rauðhólum.
„Herinn tók 95 þúsund rúmmetra. Þeir skráðu það niður allt saman. Það er ekki meira en svo að ef við stöfluðum því upp í svona fimm metra hæð þá væri það ekki nema hundrað sinnum tvöhundruð metrar á kant.“

Þetta segir hann sjást vel á loftmynd sem bandaríski herinn tók skömmu eftir stríð, árið 1946.
„Þar sér eiginlega bara ekki högg á vatni.“
-Þannig að megnið af Rauðhólunum er tekið eftir stríð?
„Já.“

-Þannig að þetta er bara bæjarbúum sjálfum og borginni um að kenna hvernig Rauðhólarnir fóru?
„Já, já, væntanlega kannski að stærstum hluta. Því að hér var óheft efnistaka meira og minna fram á sjöunda áratug,“ segir Friðþór.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: