Fótbolti

Brasilíski þjálfarinn segist dansa til að tala mál ungu strákanna í liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Richarlison fagnaði markinu með Tite þjálfara og varamönnunum.
Richarlison fagnaði markinu með Tite þjálfara og varamönnunum. AP/Pavel Golovkin

Leikmenn brasilíska fótboltalandsliðsins virðist skemmta sér konunglega saman og það sést líka á frammistöðu þeirra inn á vellinum.

Brasilíska landsliðið brunaði inn í átta liða úrslitin á HM í Katar í gær með 4-1 sigri á Suður-Kóreu og hefur unnið alla leiki sína með sitt besta lið.

Eins og Eyjamenn og Stjörnumenn forðum þá undirbúa Brasilíumenn sig fyrir leiki með því að æfa saman fögn.

Þeir fögnuðu fjórum sinnum í fyrri hálfleik á móti Suður Kóreu í gær og einu sinni var hinn 61 árs gamli þjálfari Tite tekinn með.

Tite var spurður út í dansinn sinn og fagnaðarlæti leikmanna sinna.

„Þeir eru ungir og ég reyni alltaf að aðlagast aðeins þeirra tungumáli,“ sagði Tite á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Þeirra tungumál er dansinn,“ bætti Tite við.

Eftir að Richarlison kom Brasilíu í 3-0 þá hljóp hann að hliðarlínunni og benti á þjálfara sinn.

Fyrir leikinn þá sagði Tite leikmönnum sínum að hann kannaðist eitthvað við þennan dans sem þeir voru að æfa og að hann myndi dansa með þeim ef þeir kenndu honum dansinn. Þeir gerðu það.

„Þú verður að læra þessar hreyfingar og þessar hreyfingar eru mjög nettar,“ sagði Tite.

„Ég verð samt að fara mjög varlega. Það er vont fólk þarna úti sem segja að þetta hafi verið vanvirðing. Það var það ekki. Þetta var hrein ánægja, að hafa skorað mark, með frammistöðuna og út af úrslitunum,“ sagði Tite.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×