Fótbolti

„Látið Cristiano Ronaldo í friði“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo þakkar fyrir sendingu í síðasta leik Portúgala.
Cristiano Ronaldo þakkar fyrir sendingu í síðasta leik Portúgala. AP/Natacha Pisarenko

Landsliðsþjálfari Portúgala segir að það sé kominn tími á það að leyfa Cristiano Ronaldo að fá að vera í friði.

Fernando Santos var alveg búinn að fá nóg af Ronaldo spurningum á blaðamannafundi portúgalska landsliðsins fyrir leikinn í átta liða úrslitum á HM á móti Marokkó.

Ronaldo er andlit landsliðs Portúgals og þá skiptir litlu þótt að hann sé í byrjunarliðinu eða á bekknum. Allt í kringum þennan frábæra leikmann er frétt enda lokaspretturinn hjá einum besta knattspyrnumanni allra tíma.

Santos fór vel yfir það hvað fór á milli hans og fyrirliðans í aðdraganda þess að Ronaldo þurfti að dúsa á bekknum á móti Sviss í sextán liða úrslitunum.

„Ég talaði við hann eftir hádegismat á leikdegi þar sem ég bauð honum á skrifstofuna mína,“ sagði Fernando Santos

„Að sjálfsögðu var Ronaldo ekki ánægður með þetta enda hefur hann alltaf verið byrjunarliðsmaður,“ sagði Santos.

„Hann sagði mér: Heldur þú virkilega að þetta sé góð hugmynd? Við áttu eðlilegt samtal þar sem ég útskýrði fyrir honum mínar ástæður og auðvitað sætti hann sig við þær. Við áttum hreinskilið og venjulegt samtal,“ sagði Santos.

„Hann sagði aldrei við mig að hann vildi hætta í landsliðinu og nú er komið til að við hættum að ræða þetta,“ sagði Santos.

„Hann ákvað að hita upp með liðsfélögunum og fagnaði öllum mörkunum sem við skoruðum. Í lokin var það hann sem bað liðsfélaga sína um að þakka stuðningsmönnunum fyrir stuðninginn,“ sagði Santos.

„Það er kominn tíminn að þið látið Cristiano Ronaldo í friði. Á hverjum blaðamannafundi eru níutíu prósent spurninganna um Cristiano Ronaldo,“ sagði Santos.

„Látið Cristiano Ronaldo í friði. Hann á þetta ekki skilið eftir allt sem hann hefur gert fyrir portúgalskan fótbolta,“ sagði Santos.

Portúgal vann 6-1 sigur á Sviss þar sem Goncalo Ramos, sem kom inn í liðið fyrir Ronaldo, skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×