Fótbolti

Bróðir blaða­mannsins sem lést í Katar telur að hann hafi verið myrtur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Grant Wahl var meðal þeirra sem var heiðraður fyrir HM þar sem hann hafði fjallað um 8 eða fleiri heimsmeistaramót á ferli sínum sem blaðamaður.
Grant Wahl var meðal þeirra sem var heiðraður fyrir HM þar sem hann hafði fjallað um 8 eða fleiri heimsmeistaramót á ferli sínum sem blaðamaður. Brendan Moran/FIFA

Bandaríski íþróttablaðamaðurinn Grant Wahl lést í gær 48 ára að aldri. Hann var í Katar að fjalla um HM í fótbolta og hneig niður í leik Argentínu og Hollands. Bróðir hans, Erik Wahl, segir að Grant hafi verið við hestaheilsu og telur að bróðir sinn hafi verið myrtur.

Grant Wahl komst í heimsfréttirnar þegar hann mætti á leik Bandaríkjanna og Wales í riðlakeppni HM í regnbogabol. Honum var meinað aðgengi að vellinum og sagt að hann mætti ekki klæðast bol með regnboga á. Hann var í kjölfarið í haldi lögreglu í tæpan hálftíma sem og síminn hans var tekinn af honum.

Á fimmtudag, degi áður en hann hneig niður, þá hafði Wahl birt frétt þess efnis að stjórnarmönnum í Katar væri hreinlega alveg sama þó verkafólk þar í landi væri að láta lífið vegna HM.

Grant var virkur á Twitter yfir leik Argentínu og Hollands. Setti hann inn ýmsar færslur um leikinn þangað til hann hneig niður og lést þegar leikurinn var kominn í framlengingu. Grant hafði verið að glíma við lungnabólgu í rúma viku en bróðir hans, Erik Wahl, trúir hreinlega ekki að hún hafi dregið bróðir sinn til dauða.

Erik, sem er samkynhneigður og segist vera ástæðan fyrir því að Grant mætti í regnbogabolnum, er viss um að bróðir sinn hafi verið myrtur. Hann segir í tilfinningaþrungnu myndbandi á samfélagsmiðlum að Grant hafi fengið morðhótanir eftir atvikið.

„Ég heiti Erik Wahl. Ég bý í Seattle, Washington og er bróðir Grants Wahl. Ég er samkynhneigður, ég er ástæðan fyrir því að hann var í regnbogabolnum á HM. Bróðir minn var heilsuhraustur og hann sagði mér að hann hefði fengið morðhótanir. Ég trúi ekki að bróðir minn hafi bara dáið, ég trúi að hann hafi verið myrtur og bið bara um einhverja hjálp.“

Dánarorsök er ekki ljós að svo stöddu en Grant var úrskurðaður látinn við komuna á Hamad General-spítalann.


Tengdar fréttir

Blaða­maður sem mót­mælti regn­boga­reglum á HM er látinn

Bandaríski blaðamaðurinn Grant Wahl er látinn, 49 ára að aldri. Hann var staddur í Katar til að færa fréttir af Heimsmeistaramótinu í fótbolta sem fer fram þar um þessar mundir. Hann hneig niður er hann var að fylgjast með leik Argentínu og Hollands í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×