Fótbolti

Mikið breyst frá því að Julián Álvarez bað Messi um mynd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julián Álvarez og Lionel Messi unnu vel saman í undanúrslitaleiknum á HM í Katar í gær.
Julián Álvarez og Lionel Messi unnu vel saman í undanúrslitaleiknum á HM í Katar í gær. AP/Manu Fernandez

Julián Álvarez og Lionel Messi sáu fremur en aðrir um að koma argentínska landsliðinu í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Katar.

Álvarez skoraði tvö mörk í leiknum og fiskaði vítið sem Lionel Messi skoraði fyrsta mark leiksins úr. Messi kom boltanum á Álvarez í fyrra marki City mannsins sem kom eftir einleik Álvarez frá miðju. Í hinu markinu gerði Messi frábærlega í að búa til markið fyrir Álvarez.

Álvarez er 22 ára leikmaður Manchester City og spilaði sinn fyrsta A-landsleik árið 2021.

Messi er þrettán árum eldri og hefur elt heimsbikarinn frá því að hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik árið 2005.

Álvarez er kominn með 7 mörk í 18 landsleikjum en Messi er með 96 mörk í 171 landsleik.

Eftir frammistöðu félaganna í gærkvöldi var rifjað upp þegar þá kornungur Álvarez hitti átrúnaðargoðið sitt og bað Messi um mynd.

Síðan hefur Álvarez unnið sig upp, komist frá River Plate í Argentínu til Manchester City í Englandi, og er nú orðinn fastamaður í landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×