Handbolti

Kim Andersson agndofa yfir frammistöðu Arnórs Snæs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnóri Snæ Óskarssyni héldu engin bönd þegar Valur tók á móti Ystad.
Arnóri Snæ Óskarssyni héldu engin bönd þegar Valur tók á móti Ystad. vísir/hulda margrét

Flestir sem horfðu á leik Vals og Ystad í Evrópudeildinni í handbolta í gær héldu ekki vatni yfir frammistöðu Arnórs Snæ Óskarssonar. Meðal þeirra var goðsögnin Kim Andersson.

Arnór skoraði þrettán mörk úr átján skotum í leiknum sem Valsmenn töpuðu, 29-32. Andersson skoraði sjö mörk og var markahæstur Svíanna. Hann mætti í viðtal til þeirra Stefáns Árna Pálssonar, Ásgeirs Arnar Halgrímssonar og Loga Geirssonar og hrósaði Arnóri í hástert.

„Hann var agndofa yfir frammistöðu hans og skiljanlega. Drengurinn skoraði þrettán mörk og var stórkostlegur í leiknum. Hann fékk mikið hrós frá Kim, ekki spurning,“ sagði Ásgeir í úrdrætti sínum á svörum Anderssons.

Arnór gabbaði varnarmenn Ystad upp úr skónum hvað eftir annað og þeir fengu ekkert við ráðið.

„Enn eitt skiptið mætir hann á boltann og varnarmenn vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Hann skilur þá eftir trekk í trekk og þetta er það sem gerir hann svona góðan. Og strákar, hann bar liðið á herðum á sér allan leikinn,“ sagði Logi.

Klippa: Umræða um Arnór Snær

Hann vill sjá Arnór í atvinnumennsku en segir að Valsmenn selji hann ekki hvert sem er.

„Það þarf að punga út smá pening miðað við hvernig hann er að spila. Ef ég væri í stjórn Vals myndi ég ekki hleypa honum svo glatt bara til að hleypa honum. Það verður bara að segjast eins og er að hann er að „dómínera“ í Evrópukeppninni. Hann er búinn að vera stórkostlegur. Hann getur tekið víti, við sáum hann í vörn, í hraðaupphlaupunum,“ sagði Logi.

Umræðuna um Arnór má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Við getum sjálfum okkur um kennt“

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, sagðist vera grautfúll eftir þriggja marka tap liðsins gegn Ystads í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld, 29-32.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×