Innlent

Um helmingur þol­enda kyn­ferðis­brota verða fyrir broti af hálfu ó­kunnugra

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Um 19 prósent Íslendinga tilkynntu kynferðisbrot til lögreglu sem áttu sér stað árið 2021.
Um 19 prósent Íslendinga tilkynntu kynferðisbrot til lögreglu sem áttu sér stað árið 2021. Getty

Um tvö prósent Íslendinga 18 ára og eldri urðu fyrir kynferðisbroti árið 2021, og í yfir helmingi tilvika hafði einhver þeim ókunnugur beitt ofbeldinu.

Í sextán prósent tilvika var kynferðisofbeldið af hálfu „fyrrverandi maka“, sem var mögulegar núverandi maki þegar atvikið átti sér stað.

Þetta kemur fram í könnun á reynslu landsmanna af afbrotum, öryggi íbúa og viðhorfum til lögreglu sem lögð var fyrir landsmenn 18 ára og eldri í sumar. Ríkislögreglustjóri og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu standa að rannsókninni. Spurningarnar sneru að reynslu landsmanna af afbrotum, öryggi íbúa, og viðhorfi til lögreglu.

Aldrei fleiri tilkynningar um kynferðisbrot

Í niðurstöðum kemur fram að árið 2021 leituðu tuttugu og átta prósent landsmanna til lögreglu um aðstoð eða þjónustu.

Um nítján prósent Íslendinga tilkynntu kynferðisbrot til lögreglu sem áttu sér stað árið 2021. 

Í samanburði við fyrri rannsóknir hefur ekki áður jafn hátt hlutfall landsmanna tilkynnt kynferðisbrot til lögreglu.

Spurt var um reynslu af því að einhver deildi án leyfis kynferðislegu efni sem olli ama árið 2021. Um eitt prósent svarenda sögðust hafa orðið fyrir slíku og tvö prósent sögðust hafa fengið hótun um slíkt.

Tæplega helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins, eða fjörtíu og sjö prósent sagðist frekar eða mjög öruggir í miðborg Reykjavíkur að kvöldlagi eða eftir miðnætti um helgar. 

Um sextíu prósent karla telja sig örugga og þrjátíu og fjögur prósent kvenna.

Flestir ánægðir með þjónustu lögreglu

Af þeim sem leituðu til lögreglu voru sjötíu og átta prósent frekar eða mjög ánægð með þjónustu/aðstoð lögreglu sem er aðeins lægra hlutfall en síðustu ár á undan. Flestir nýttu sér samfélagsmiðla til að hafa samband á Suðurnesjum, eða tuttugu og fjögur prósent og um tuttugu prósent á höfuðborgarsvæðinu. Þá var hlutfallið einnig hátt hjá íbúum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi eystra þar sem átján til nítján prósent nýttu sér þessa leið.

Almennt telja sjötíu og þrjú prósent Íslendinga lögreglu vera aðgengilega. Íbúar á Norðurlandi vestra telja lögreglu síst aðgengilega en í strjálbýli getur verið langt í næstu lögreglustöð.

Mjög svipað hlutfall svarenda varð fyrir innbroti árið 2021 og fyrri ár, eða sjö prósent íbúa. Hins vegar urðu færri fyrir þjófnaði 2021 og 2020 miðað við fyrri ár, voru sex prósent 2021 og sjö prósent 2020, en allt upp í þrettán prósent landsmanna árin þar á undan.

Um fjögur prósent urðu fyrir því að svikið var af þeim fé við kaup á vöru á netinu. Þá urðu sex prósent fyrir tilraun til slíks brots.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×