Mac Allister byrjaði heimsmeistaramótið á bekk Argentínu þegar liðið tapaði fyrir Sádi-Arabíu í fyrsta leik en vann sér svo inn sæti og var á meðal betri leikmanna liðsins á mótinu.
Hann byrjaði úrslitaleik Argentínu og Frakklands og spilaði þar 116 mínútur áður en honum var skipt af velli. Þessi 24 ára leikmaður var spilandi í argentínsku deildinni fyrir rúmum tveimur árum síðan en hefur stimplað sig rækilega inn með Brighton á Englandi í ár.
Hann tók lítinn sem engan þátt í forkeppni Argentínu fyrir HM og varð ekki fastamaður með landsliðinu fyrr en á heimsmeistaramótinu. Tólf af fjórtán landsleikjum hans hafa verið á þessu ári en hinir tveir voru árið 2019.
Sveittur og skjálfandi
Mac Allister er snúinn aftur til Brighton og var til viðtals á miðlum félagsins hvar hann greinir frá því hversu gríðarlega stressaður hann var þegar hann kom fyrst til æfinga með Lionel Messi.
„Ég var svo stressaður að hendurnar mínar skulfu, segir Mac Allister. Ég er býsna feiminn náungi og var virkilega kvíðinn. En svo áttar maður sig á því hversu auðmjúkur hann er,“
„Við mættum til móts við landsliðið og hann var að borða kvöldmat. Ég fór að borðinu til að heilsa honum. Hendurnar á mér skulfu og ég var í svitakófi, en svo var það dásamlegt,“