Í ákærunni kemur fram að einn hinna ákærðu sé ákærður fyrir að hafa svikið samtals rúmlega 2,8 milljónir króna af reikningi mannsins með því að millifæra 2,3 milljónir inn á reikning annars hinna ákærðu. Þá segir að hann hafi notað debetkort mannsins til að taka út um 330 þúsund krónur í reiðufé í hraðbönkum á Akureyri og til að greiða 184 þúsund krónur fyrir vörur og verslunum bæði á Akureyri og í Hrísey.
Sá sem ákærður er fyrir svikin er sagður hafa stolið debetkortinu af manninum þegar hann dvaldi tímabundið á heimili mannsins í Hrísey í júlí 2020.
Hin fimm eru ákærð fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við fjármunum, eða öðrum ávinningi, og að þeim hafi átt að vera vera ljóst að uppruna peninganna mætti rekja til bankareiknings mannsins. Þau hafi afhent fjármunina eða nýtt þá, þrátt fyrir að hafa vitað að um ólöglega fengið fé hafi verið að ræða.
Móðir þess sem sveik út fé af bankareikningi mannsins er ein þeirra sem ákærð er í málinu. Hún á að hafa tekið við bifhjóli sem greiðslu upp í skuld frá enn öðrum sem ákærður er í málinu. Henni hafi þó átt að vera kunnugt um að um ávinning af brotastarfsemi hafi verið að ræða.
Þess er krafist að ákærðu greiði manninum fjárhæðina sem stolið var og þá er þess krafist að bifhjólið, sem er af gerðinni Yamaha YZF, verði gert upptækt.