Fótbolti

Al Nassr kynnir Ron­aldo til leiks: Á að hvetja fram­tíðar­kyn­slóðir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo er mættur til Sádi-Arabíu.
Ronaldo er mættur til Sádi-Arabíu. Twitter@AlNassrFC_EN

Nýjasta lið Cristiano Ronaldo, Al Nassr, hefur kynnt leikmanninn til leiks. Félagið telur að Ronaldo muni hvetja drengi og stúlkur landsins til að verða besta útgáfan af sjálfum sér.

Í gær var staðfest að Ronaldo muni spila í Sádi-Arabíu til sumarsins 2025. Hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning en talið er að hann fái um 200 milljónir Bandaríkjadala eða 28 milljarða íslenskra króna fyrir árið.

Al Nassr hefur nú opinberað komu Ronaldo og sjá má hann halda á gulum og bláum búning liðsins með númerinu 7 á bakinu. Í tilkynningunni segir:

„Sögulegt augnablik. Þessi kaup munu ekki aðeins ýta undir frekari árangur hjá félaginu heldur hvetja deildina, þjóðina og framtíðarkynslóðir til að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Velkominn Cristiano.“

Ronaldo sjálfur segist mjög spenntur fyrir því að spila í nýju landi og upplifa nýja hluti. Þá segist hann hafa verið heillaður af „sýn“ Al Nassr.

Hinn 37 ára gamli Ronaldo hefur allan sinn feril spilað í Evrópu – með Sporting í Portúgal, Manchester United á Englandi, Real Madríd á Spáni og Juventus á Ítalíu – en mun nú að öllum líkindum ljúka ferli sínum í Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×