Áramótahugleiðing Sigurvin Lárus Jónsson skrifar 1. janúar 2023 20:31 Megi góður guð veita þér og þínum gleði og farsæld á komandi ári. Af hættu við að hljóma eins og jólakort, tek ég innilega undir þessa kveðju sem er svo sjálfsagður hluti af menningu okkar og hátíðarhöldum að við stöldrum sjaldnast við. Áramót byggja á djúpstæðri þörf manneskjunnar til að gera upp og setja punkt við áfanga á lífsferli okkar og hefja nýtt skeið í samhengi við það samferðafólk sem við göngum með. Skeið sem í senn er endurtekning á því sem þegar höfum lifað og tækifæri til að vaxa í átt að meiri fegurð, hamingju og kærleika í lífi okkar. Geta mannsins til að muna er í senn styrkleiki okkar og veikleiki og eitt af því sem hefur gert okkur kleift að þróa með okkur þá tækni og menningu sem einkennir tilveru okkar og tilgang. Með því að muna, getum við lært og með því að miðla minni okkar getum við deilt reynslu okkar með öðrum. Þær upplýsingar sem við söfnum og munum eru ekki einungis upplýsingar, heldur ekki síður upplifanir og úrvinnsla. Manneskjan er sannarlega fær um að safna upplýsingum á skynsaman og reglubundin hátt en í grunninn erum við tilfinninga og tengslaverur, fremur en skynsemisverur. Þess vegna óskum við hvert öðru gleði á komandi ári, fremur en að orða einhver markmið sem eru mælanleg með mælikvörðum skynseminnar. Skynjun okkar skilgreinir tilveru okkar. Við þekkjum það öll í einhverri mynd að hafa notið þess að takast á við verkefni eða erfiðleika sem aðrir kvíða, á meðan aðrir virðast ekki kippa sér upp við að standa frammi fyrir aðstæðum sem við upplifum sem skelfilegar. Munurinn felst ekki í aðstæðunum, heldur upplifun okkar og tilfinningalegri getu til að takast á við verkefnið sem framundan er. Það er ekki tilviljun að frelsari okkar bendir ítrekað á ungabörn í leit að fyrirmynd að því hvernig að við eigum að lifa lífi okkar. Þau sem njóta þeirrar gæfu að hafa ungabarn á heimili sína, þekkja það daglega undrunar og gleðiefni að fylgjast með barni takast á við verkefni lífsins. Barni sem óttalaust heldur áfram að æfa færni sína, þrátt fyrir byltur og meiddi, og heldur í hverja könnunarferðina á fætur annarri um skápa og hirslur heimilisins, rekið áfram af eðlislægri forvitni. Ósigra og vonbrigði hrista börn jafnharðan af sér með lífsgleðina að vopni í leit að nýjum áskorunum. Árið sem er að baki hefur verið um margt merkilegt ár og þegar farið er yfir sviðið er í senn ástæða til að syrgja og gleðjast yfir atburðum líðandi árs. Í Evrópu var tekist á um öryggismál, flóttamannastrauminn til álfunnar, hryðjuverk, trúaröfga og loftslagsmál. Öll þessi mál varða samfélag okkar með beinum hætti. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er víðtækur og stór en það er jafnframt rík ástæða til að vera bjartsýn. Svo víða sjást merki þess að viðbrögð við stórum vanda er samstaða og þó það sé vissulega margt sem sundrar okkur, erum við í grunnin eins, óháð öllum þeim skoðanaágreiningi og eiginleikum sem tekist er á um. Þær raddir sem vilja snúa baki við neyð náungans eru á endanum kveðnar í kútinn, hagmunagæsla stórfyrirtækja og stjórnmálaafla mun á endanum gefa undan gagnrýni almennings og óttaáróður þeirra sem vilja einsleitni í samfélaginu þolir ekki til lengdar dagsins ljós. Boðskapur Biblíunnar á sannarlega erindi inn í þessu deiglu, ekki til að bera fram algild svör eða skerpa á landamærum í trúarlegu og menningarlegu tilliti, heldur til að sýna fram á að við getum lært af fyrri mistökum og öðlast von um betri framtíð. 90. Davíðssálmur fer þar fremstur í flokki og þar er í forgrunni samhengi tímans. Enginn ritningartexti stendur þjóðinni nær, þar sem 90. Davíðssálmur er andlag þess lofsöngs sem Matthías Jochumson samdi fyrir Þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og er þjóðsöngur okkar Íslendinga. Sálmurinn, sem er vonarkvæði, ort í von um að Guð bænheyri þjóð sína, hefst með þeirri huggun að við erum örugg í hans hendi. Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Hverfulleiki þessa lífs og stutt æviskeið er síðan áréttað með því að setja mannsævina í samhengi við stærra samhengi tímans: Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Loks er ákall um að vera þess meðvituð að lífið er stutt og að okkur beri að njóta þess takmarkaða tíma sem okkur er úthlutað. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora. Við áramót teljum við fram það sem áunnist hefur á liðnu ári og gerum upp það sem miður fór. Fá verkefni í lífi okkar hafa meiri áhrif á lífsgæði okkar en það, þar sem vonbrigði og skömm yfir hinu liðna og ótti í garð þess sem koma skal, getur bókstaflega gert okkur ókleyft að njóta þess tíma sem við höfum. Við erum breyskar manneskjur sem lifum í fallvöltum heimi og þjáning virðist fasti í mannlegri tilveru. Biblían er sannarlega raunsæ í þeim efnum, en okkur er gefin af Guði getan til að rísa yfir erfiðleika okkar, ef við viljum þiggja þá náð að mega lifa í skjóli hans. Andspænis komandi ári er ég fullur eftirvæntingar og fullur kvíða, því neita ég ekki. Ég óttast um framvindu heimsmála, ég óttast um velferð þjóðarinnar, ég óttast um afdrif barna minna og ástvina og ég óttast eigin vanmátt andspænis verkefnum næsta árs. Um framvindu heimsmála og velferð þjóðarinnar get ég litlu ráðið, öðru en því að láta gott af mér leiða með því að tala sannfæringu mína inn í aðstæður hverju sinni, ástvinum mínum er mér einungis gefin náð til að elska en ekki að breyta, og vanmátt minn legg ég í Guðs hendur í trausti þess sem segir í sálminum. Metta oss að morgni með miskunn þinni. Sú miskunn kann að virðast veikburða von en hún er það haldreipi sem kristin kirkja hverfist um og sú sterka hönd sem við höfum svo mörg fengið að reyna í erfiðleikum lífsins. Höfundur er prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Trúmál Sigurvin Lárus Jónsson Mest lesið Ísrael – brostnir draumar og lygar Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Ætla þau að halda áfram að grafa sína eigin gröf? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Þú ert búin að eyðileggja líf mitt!!! Sandra Ósk Jóhannsdóttir Skoðun Þegar hið smáa verður risastórt Sigurjón Þórðarson Skoðun Landið talar Davíð Arnar Oddgeirsson Skoðun Vertu drusla! Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir Skoðun Halldór 26.07.2025 Halldór Ein af hverjum fjórum Silja Höllu Egilsdóttir Skoðun Tekur sér stöðu með Evrópusambandinu Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Að þröngva lífsskoðun upp á annað fólk Sævar Þór Jónsson Skoðun Skoðun Skoðun Landið talar Davíð Arnar Oddgeirsson skrifar Skoðun Ætla þau að halda áfram að grafa sína eigin gröf? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Ísrael – brostnir draumar og lygar Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir skrifar Skoðun Ein af hverjum fjórum Silja Höllu Egilsdóttir skrifar Skoðun Vertu drusla! Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar Skoðun Þegar hið smáa verður risastórt Sigurjón Þórðarson skrifar Skoðun Þú ert búin að eyðileggja líf mitt!!! Sandra Ósk Jóhannsdóttir skrifar Skoðun Tekur sér stöðu með Evrópusambandinu Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Feluleikur ríkisstjórnarinnar? Lárus Guðmundsson skrifar Skoðun Ég heiti Elísa og ég er Drusla Elísa Rún Svansdóttir skrifar Skoðun Grindavík má enn bíða Gísli Stefánsson skrifar Skoðun Aðventukerti og aðgangshindranir Kristín María Birgisdóttir skrifar Skoðun Lífið í tjaldi á Gaza Viðar Hreinsson,Israa Saed skrifar Skoðun Gaza og sjálfbærni mennskunnar Elva Rakel Jónsdóttir skrifar Skoðun Börnin og hungursneyðin í Gaza Sverrir Ólafsson skrifar Skoðun Kynbundið ofbeldi Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,Steinunn Bragadóttir skrifar Skoðun Aðdragandi aðildar þarf umboð Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Yfirlýsing frá Kára Stefánssyni um hrakfarir hans í samskiptum við íhaldssaman blaðamann Kári Stefánsson skrifar Skoðun Þétting byggðar er ekki vandamálið Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar Skoðun Þrengt að þjóðarleikvanginum Þorvaldur Örlygsson skrifar Skoðun Ert þú drusla? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson skrifar Skoðun Alltof mörg sveitarfélög á Íslandi! Gunnar Alexander Ólafsson skrifar Skoðun Öryggi betur tryggt – fangelsismál færð til nútímans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Lýðheilsan að veði? Willum Þór Þórsson skrifar Skoðun Evrópusambandsaðild - valdefling íslensks almennings Magnús Árni Skjöld Magnússon skrifar Skoðun Köllum Skjöld Íslands réttu nafni: Rasískt götugengi Ian McDonald skrifar Skoðun Hverjir eru komnir með nóg? Nichole Leigh Mosty skrifar Skoðun Að leigja okkar eigin innviði Halldóra Mogensen skrifar Skoðun Málþóf sem valdníðsla Einar G. Harðarson skrifar Sjá meira
Megi góður guð veita þér og þínum gleði og farsæld á komandi ári. Af hættu við að hljóma eins og jólakort, tek ég innilega undir þessa kveðju sem er svo sjálfsagður hluti af menningu okkar og hátíðarhöldum að við stöldrum sjaldnast við. Áramót byggja á djúpstæðri þörf manneskjunnar til að gera upp og setja punkt við áfanga á lífsferli okkar og hefja nýtt skeið í samhengi við það samferðafólk sem við göngum með. Skeið sem í senn er endurtekning á því sem þegar höfum lifað og tækifæri til að vaxa í átt að meiri fegurð, hamingju og kærleika í lífi okkar. Geta mannsins til að muna er í senn styrkleiki okkar og veikleiki og eitt af því sem hefur gert okkur kleift að þróa með okkur þá tækni og menningu sem einkennir tilveru okkar og tilgang. Með því að muna, getum við lært og með því að miðla minni okkar getum við deilt reynslu okkar með öðrum. Þær upplýsingar sem við söfnum og munum eru ekki einungis upplýsingar, heldur ekki síður upplifanir og úrvinnsla. Manneskjan er sannarlega fær um að safna upplýsingum á skynsaman og reglubundin hátt en í grunninn erum við tilfinninga og tengslaverur, fremur en skynsemisverur. Þess vegna óskum við hvert öðru gleði á komandi ári, fremur en að orða einhver markmið sem eru mælanleg með mælikvörðum skynseminnar. Skynjun okkar skilgreinir tilveru okkar. Við þekkjum það öll í einhverri mynd að hafa notið þess að takast á við verkefni eða erfiðleika sem aðrir kvíða, á meðan aðrir virðast ekki kippa sér upp við að standa frammi fyrir aðstæðum sem við upplifum sem skelfilegar. Munurinn felst ekki í aðstæðunum, heldur upplifun okkar og tilfinningalegri getu til að takast á við verkefnið sem framundan er. Það er ekki tilviljun að frelsari okkar bendir ítrekað á ungabörn í leit að fyrirmynd að því hvernig að við eigum að lifa lífi okkar. Þau sem njóta þeirrar gæfu að hafa ungabarn á heimili sína, þekkja það daglega undrunar og gleðiefni að fylgjast með barni takast á við verkefni lífsins. Barni sem óttalaust heldur áfram að æfa færni sína, þrátt fyrir byltur og meiddi, og heldur í hverja könnunarferðina á fætur annarri um skápa og hirslur heimilisins, rekið áfram af eðlislægri forvitni. Ósigra og vonbrigði hrista börn jafnharðan af sér með lífsgleðina að vopni í leit að nýjum áskorunum. Árið sem er að baki hefur verið um margt merkilegt ár og þegar farið er yfir sviðið er í senn ástæða til að syrgja og gleðjast yfir atburðum líðandi árs. Í Evrópu var tekist á um öryggismál, flóttamannastrauminn til álfunnar, hryðjuverk, trúaröfga og loftslagsmál. Öll þessi mál varða samfélag okkar með beinum hætti. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er víðtækur og stór en það er jafnframt rík ástæða til að vera bjartsýn. Svo víða sjást merki þess að viðbrögð við stórum vanda er samstaða og þó það sé vissulega margt sem sundrar okkur, erum við í grunnin eins, óháð öllum þeim skoðanaágreiningi og eiginleikum sem tekist er á um. Þær raddir sem vilja snúa baki við neyð náungans eru á endanum kveðnar í kútinn, hagmunagæsla stórfyrirtækja og stjórnmálaafla mun á endanum gefa undan gagnrýni almennings og óttaáróður þeirra sem vilja einsleitni í samfélaginu þolir ekki til lengdar dagsins ljós. Boðskapur Biblíunnar á sannarlega erindi inn í þessu deiglu, ekki til að bera fram algild svör eða skerpa á landamærum í trúarlegu og menningarlegu tilliti, heldur til að sýna fram á að við getum lært af fyrri mistökum og öðlast von um betri framtíð. 90. Davíðssálmur fer þar fremstur í flokki og þar er í forgrunni samhengi tímans. Enginn ritningartexti stendur þjóðinni nær, þar sem 90. Davíðssálmur er andlag þess lofsöngs sem Matthías Jochumson samdi fyrir Þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og er þjóðsöngur okkar Íslendinga. Sálmurinn, sem er vonarkvæði, ort í von um að Guð bænheyri þjóð sína, hefst með þeirri huggun að við erum örugg í hans hendi. Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Hverfulleiki þessa lífs og stutt æviskeið er síðan áréttað með því að setja mannsævina í samhengi við stærra samhengi tímans: Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Loks er ákall um að vera þess meðvituð að lífið er stutt og að okkur beri að njóta þess takmarkaða tíma sem okkur er úthlutað. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora. Við áramót teljum við fram það sem áunnist hefur á liðnu ári og gerum upp það sem miður fór. Fá verkefni í lífi okkar hafa meiri áhrif á lífsgæði okkar en það, þar sem vonbrigði og skömm yfir hinu liðna og ótti í garð þess sem koma skal, getur bókstaflega gert okkur ókleyft að njóta þess tíma sem við höfum. Við erum breyskar manneskjur sem lifum í fallvöltum heimi og þjáning virðist fasti í mannlegri tilveru. Biblían er sannarlega raunsæ í þeim efnum, en okkur er gefin af Guði getan til að rísa yfir erfiðleika okkar, ef við viljum þiggja þá náð að mega lifa í skjóli hans. Andspænis komandi ári er ég fullur eftirvæntingar og fullur kvíða, því neita ég ekki. Ég óttast um framvindu heimsmála, ég óttast um velferð þjóðarinnar, ég óttast um afdrif barna minna og ástvina og ég óttast eigin vanmátt andspænis verkefnum næsta árs. Um framvindu heimsmála og velferð þjóðarinnar get ég litlu ráðið, öðru en því að láta gott af mér leiða með því að tala sannfæringu mína inn í aðstæður hverju sinni, ástvinum mínum er mér einungis gefin náð til að elska en ekki að breyta, og vanmátt minn legg ég í Guðs hendur í trausti þess sem segir í sálminum. Metta oss að morgni með miskunn þinni. Sú miskunn kann að virðast veikburða von en hún er það haldreipi sem kristin kirkja hverfist um og sú sterka hönd sem við höfum svo mörg fengið að reyna í erfiðleikum lífsins. Höfundur er prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík.
Skoðun Yfirlýsing frá Kára Stefánssyni um hrakfarir hans í samskiptum við íhaldssaman blaðamann Kári Stefánsson skrifar
Skoðun Ert þú drusla? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar
Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson skrifar
Skoðun Öryggi betur tryggt – fangelsismál færð til nútímans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar