Englandsmeistararnir fóru illa með Chelsea

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Manchester City vann öruggan sigur gegn Chelsea í dag.
Manchester City vann öruggan sigur gegn Chelsea í dag. Naomi Baker/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City unnu afar öruggan 4-0 sigur er liðið tók á móti Chelsea í stórleik þriðju umferðar FA-bikarsins. Þetta er í annað sinn á fjórum dögum sem City hefur betur gegn Chelsea, en liðin mættust einnig í deildinni fyrr í vikunni.

Riyad Mahrez kom heimamönnum í forystu með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 23. mínútu leiksins. Julian Alvarez tvöfaldaði svo forystu City sjö mínútum síðar með marki af vítapunktinum eftir að Kai Havertz hafði handleikið knöttinn innan vítateigs.

Það var svo Phil Foden sem sá til þess að staðan var 3-0 í hálfleik þegar hann batt endahnútinn á vel útfærða sókn heimamanna og útlitið svart fyrir Lundúnaliðið þegar gengið var til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var í meira jafnvægi en sá fyrri, en Riyad Mahrez bætti þó öðru marki sínu við og fjórða marki City þegar hann skoraði af miklu öryggi af vítapunktinum.

Niðurstaðan því öruggur 4-0 sigur City sem er á leið í fjórðu umferð FA-bikarsins þar sem liðið mætir annað hvort Arsenal eða Oxford.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira