Mikið er í húfi að meiri loðna finnist en væntingar hafa verið um mun meiri kvóta. Á sama tíma í fyrra hafði Hafrannsóknastofnun mælt með 400 þúsund tonna loðnukvóta. Í ár er talan helmingi lægri, rúm 200 þúsund tonn. Ef kvótinn hækkaði upp í samræmi við væntingar gætu það verið útflutningsverðmæti á bilinu 15 til 20 milljarðar króna.
Leiðangurinn er í samstarfi við útgerðir uppsjávarveiðiskipa sem greiða þann aukakostnað sem af honum hlýst, samkvæmt frétt Hafrannsóknastofnunar. Að sögn Guðmundar Óskarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, má áætla að kostnaður útgerðarinnar geti verið á bilinu 20 til 30 milljónir króna.
„Markmiðið er að safna upplýsingum um göngur og dreifingu loðnustofnsins austan og norðan við land. Slíkar upplýsingar hjálpa til að ákveða hvenær það sé líklegast til árangurs að fara til mælinga á stærð loðnustofnsins og ná sem markverðustu mælingu á honum.
Eins verði hægt að ákvarða það magn sem komið er inn á loðnumiðin og mögulega það magn sem kann að ganga snemma inn í hlýsjóinn suðaustanlands og tapast af mælisvæðinu, ef til þess kæmi,“ segir í frétt Hafró.

Guðmundur segir að Árni Friðriksson muni hefja leitina úti fyrir sunnanverðum Austfjörðum og síðan fikra sig áfram norður. Gert er ráð fyrir að þessi aukaleiðangur geti varað í 1-2 vikur en hann verður síðan nýttur til að meta hvenær heppilegast sé að hefja hefðbundinn stofnmælingaleiðangur loðnunnar, en Guðmundur telur sennilegast að það verði á tímabilinu 20. til 25. janúar. Þá mun hitt rannsóknaskipið, Bjarni Sæmundsson, bætast við en sú stofnmæling verður alfarið kostuð af Hafrannsóknastofnun.
„Þær mælingar munu svo liggja til grundvallar að lokaveiðiráðgjöf á loðnu á þessari vertíð,“ segir Hafrannsóknastofnun. Fiskifræðingurinn Birkir Bárðarson er leiðangursstjóri.