Fyrr um kvöldið veitti lögregla ökumanni eftirför eftir að hann ók gegn rauðu ljósi. Ökumaðurinn virti ekki stöðvunarmerki lögreglu og reyndi að stinga hana af. Að lokum stökk hann út úr bifreiðinni og reyndi að hlaupa undan en var náð.
Viðkomandi er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna auk þess sem hann reyndist eftirlýstur vegna annarra mála. Hann var vistaður í fangageymslu.
Tveir ökumenn sem voru stöðvaðir við hefðbundið umferðareftirlit í höfuðborginni í gærkvöldi og nótt reyndust hafa verið sviptir ökuréttindum sínum.
Þá var tilkynnt um bifreið utan vegar en þegar lögreglu bar að reyndust tveir í bílnum og báðir undir áhrifum vímuefna. Báðir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.