Mikil köfnunarefnisdíoxíðsmengun hefur mælst í borginni á fyrstu fimmtán dögum þessa árs. Í meira en fjörutíu klukkustundir frá ársbyrjun hefur mengunin farið yfir 200 stig en það má samkvæmt reglugerð umhverfisráðuneytisins aðeins gerast átján sinnum á ári.
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun í loftgæðum, telur líklegt að þar með sé búið að slá mengunarmet á þessari öld. Hann segir í samtali við fréttastofu að í það minnsta sé um að ræða metmengun í allavega áratug en það á eftir að sannreyna hversu langt er síðan köfnunarefnisdíoxíðsmengun var svona mikil.
Og íbúar eru byrjaðir að finna fyrir heilsufarseinkennum vegna mengunarinnar.
„Ég byrja persónulega alla daga á blóðnasir. Og er yfir allan daginn með smá blóðnasir,“ segir Rannveig Ernudóttir, formaður íbúaráðs Laugardals.
Það eru ekki einu einkennin. Kverkaskítur, höfuðverkir og slappleiki eru þar á meðal og segist hún hafa kannað alla aðra mögulega orsakavalda.
„Er þetta mygla, er þetta lélegt ónæmiskerfi? Ég er búin að útiloka í rauninni allt,“ segir Rannveig.
Og það eina sem stendur eftir er búseta við umferðaræðina Sæbraut. Rannveig er ekki ein um að finna fyrir einkennum á heimilinu en börnin hennar hafa fundið fyrir miklum slappleika á þessum miklu mengunardögum.
„Þá er maður kominn í þann vítahring að ef þau eru slöpp er maður ekki að senda þau gangandi í skólann. En þá tek ég líka þátt í þessum vítahring,“ segir Rannveig.
„Við getum ekki opnað glugga. Það er bara ekki hægt því þá fáum við alla mengunina inn til okkar. Þetta er orðið mjög hvimleitt og mjög aðkallandi að það sé farið í aðgerðir og eitthvað gert í þessum málum.“
Stjórnvöld þurfi að setjast niður, móta skýra stefnu og fylgja henni eftir.
„Eigum við að láta reyna á það að bílar sem enda á oddatölu keyra ekki í dag? Hvað ef þeir gera það ekki, hvað er þá gert? Þarna þarf að skýra hlutina.“