Norðmenn þurftu svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum er liðið mætti Hollendingum í kvöld. Hollenska liðið var með fjögurra marka forskot þegar flautað var til hálfleiks, 17-13, en Norðmenn snéru taflinu sér í hag í síðari hálfleik og unnu að lokum mikilvægan eins marks sigur, 27-26.
Sander Sagosen var eins og svo oft áður markahæstur í liði Norðmanna með sjö mörk, en með sigrinum tryggði norska liðið sér efsta sæti F-riðils. Noregur endar með fullt hús stiga og fer því með fjögur stig í milliriðil, en Hollendingar enda í öðru sæti með fjögur stig og taka tvö þeirra með sér í milliriðilinn.
Þá lentu Danir ekki í neinum vandræðum er liðið mætti Túnis á sama tíma þar sem danska liðið vann öruggan 13 marka sigur, 34-21.
Danir enda því með fullt hús stiga í H-riðli, en Túnis náði aðeins í eitt stig í leikjunum þremur og endarí fjórða og neðsta sæti.
Að lokum unnu Króatar öruggan 12 marka sigur gegn Marokkó í G-riðli og enda með fjögur stig í öðru sæti, líkt og Serbar gera í E-riðli eftir tíu marka sigur gegn Katar.