Undir stjórn Arnar Gunnlaugssonar urðu Víkingar bikarmeistarar í fyrsta sinn í 48 ár árið 2019 og Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í þrjátíu ár árið 2021. Í kvöld getur Víkingsliðið endað enn eina löngu biðina eftir titli.

Víkingur mætir þá Fram í úrslitaleik Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu. Það mót hafa Víkingar ekki unnið í 41 ár eða síðan vorið 1982. Mótherjarnir í kvöld eru Framarar en þeir urðu síðast bikarmeistarar árið 2014 eða fyrir níu árum síðan.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, hefur komið Fossvogsfélaginu aftur á toppinn og undir hans stjórn hefur félagið unnið fjóra titla á fjórum tímabilum. Auk þess að enda fyrrnefndar eyðimerkurgöngur þá endaði Arnar síðan auðvitað aðra bið, í raun 61 árs bið (frá upphafi bikarkeppninnar), þegar Víkingar unnu tvöfalt í fyrsta sinn í sögu knattspyrnuliðs félagsins árið 2021.

Víkingar tryggðu sér Reykjavíkurmeistaratitilinn síðast með 3-0 sigri á Fylki 5. maí 1982 en meðal markaskorara liðsins í leiknum var Heimir Karlsson, núverandi útvarpsmaður á Bylgjunni. Hin mörkin skoruðu þeir Stefán Halldórsson og Helgi Helgason.
Víkingsliðið var þarna Íslandsmeistari og varði síðan Íslandsmeistaratitilinn seinna um þetta sumar.
Þetta var fimmti Reykjavíkurmeistaratitill Víkinga en liðið hafði einnig orðið meistari 1980, 1976 og 1974. Fyrsti Reykjavíkurmeistaratitilinn vannst aftur á móti árið 1940.
Frá því að Víkingur varð síðast Reykjavíkurmeistari þá hafa Framarar unnið mótið tíu sinnum þar af tvisvar á þremur árum frá 2012 til 2014.
Víkingar tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með því að vinna A-riðil (2 sigrar og 1 tap) en Framarar unnu aftur á móti B-riðil (2 sigrar, 1 jafntefli) og eru eina liðið í þessu Reykjavíkurmóti sem hefur ekki tapað leik.
Bið eftir Reykjavíkurmeistaratitli karla í fótbolta:
1 ár - Valur (2022)
3 ár - KR (2020)
5 ár - Fjölnir (2018)
7 ár - Leiknir (2016)
9 ár - Fram (2014)
15 ár - ÍR (2008)
16 ár - Fylkir (2007)
21 ár - Þróttur (2002)
41 ár - Víkingur (1982)