Belgurinn sem er hátt upp í himinhvolfinu sást síðast yfir Montana ríki og hafa hernaðaryfirvöld enn sem komið er ekki viljað skjóta belginn niður, af ótta við að brak úr honum lenti á fólki eða byggingum.
Kínverjar hafa ekkert tjáð sig um málið en Kanadamenn segjast hinsvegar einnig vera að skoða slíkt atvik, en svo virðist sem belgurinn hafi flogið yfir Alaska, í gegnum Kanada og til Bandaríkjanna.
Talsmenn varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna segir hinsvegar litla hættu vera af belgnum, því vel sé fylgst með honum og staðsetning hans sé yfirvöldum ávallt ljós á hverjum tíma. Þá er hann í svo mikilli hæð að farþegaþotum stafar engin hætta af honum.