Fótbolti

Dortmund og Union Berlin jöfnuðu topplið Bayern að stigum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Borussia Dortmund vann öruggan sigur í dag.
Borussia Dortmund vann öruggan sigur í dag. Lars Baron/Getty Images

Það verður seint hægt að saka þýsku úrvalsdeildina í fótbolta um að vera óspennandi þetta tímabilið, en eftir leiki helgarinnar eru þrjú lið jöfn á toppnum.

Eftir tap Bayern München gegn Borussia Mönchengladbach í gær get Borussa Dotmund jafnað Þýskalandsmeistarana að stigum með sigri gegn Hertha Berlin og Union Berlin gat komið sér á toppinn með sigri gegn botnliði Schalke.

Berlínarliðið þurfti þó að sætta sig við markalaust jafntefli gegn Schalke og tókst liðinu því aðeins að jafna Bayern að stigum, en þetta var fjórða jafnteflið í röð hjá Schalke sem er nú sex stigum frá öruggu sæti.

Dortmund vann hins vegar afar öruggan 4-1 sigur í sínum leik er liðið tók á móti Hertha Berlin. Karim Adeyemi og Donyell Malen sáu um markaskorun liðsins í fyrri hálfleik, en í síðari hálfleik bættu þeir Marco Reus og Julian Brandt sínu markinu hvor við eftir að gestirnir höfðu minnkað muninn.

Eftir leiki helgarinnar eru Bayern München, Borussia Dortmund og Union Berlin því öll með 43 stig á toppi deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan Freiburg sem situr í fjórða sæti. Bayern er með bestu markatöluna af þessum þremur liðum og vermir því efsta sætið, Dortmund situr í öðru sæti og Union Berlin því þriðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×