Fótbolti

Norska knatt­spyrnu­sam­bandið tapaði 564 milljónum á síðasta ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland og Martin Odegaard eru tvær stærstu stjörnur norska karlalandsliðsins í fótbolta.
Erling Haaland og Martin Odegaard eru tvær stærstu stjörnur norska karlalandsliðsins í fótbolta. Getty/Pedja Milosavljevic

Knattspyrnusamband Íslands skilaði hagnaði á síðasta ári en sömu sögu er ekki hægt að segja um kollegana í Noregi.

Norska knattspyrnusambandið tapaði 40 milljónum norskra króna á síðasta ári eða rúmlega 565 milljónum íslenskra króna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá norska knattspyrnusambandinu.

Sambandið hafði reyndar gert ráð fyrir 22 milljón tapi í ársáætlun en tapið næstum því tvöfaldaðist.

Mestu áhrifin hafði aukin ferðakostnaður A-landsliðanna vegna hækkunar á flugi, hótelum og öðru tengdu því.

„Árið 2022 var mjög krefjandi ár fjárhagslega,“ sagði Lise Klaveness, formaður norska knattspyrnusambandins í fréttatilkynningu.

Vegna kóronuveirunnar þurftu norsku landsliðin meðal annars að ferðast meira með leiguflugvélum. Klaveness segir að norska knattspyrnusambandið þurfti að lækka útgjöld sín á komandi árum.

Framkvæmdastjórinn Kai-Erik Arstad hefur þó ekki miklar áhyggjur af þessu því sambandið hafi gert sér grein fyrir því síðasta vor að tapreksturinn yrði mikill á þessu ári og sambandið hafi efni til að komast í gegnum svona óvenjulegt ár.

Knattspyrnusamband Íslands hefur nú líka birt ársreikning fyrir árið 2022 og var hagnaður KSÍ var 156,8 milljónir króna sem skýrist að mestu af mótvægisstyrk frá stjórnvöldum vegna heimsfaraldurs og uppgjöri sjónvarpsréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×