Þriðja kjörtímabil Xi var staðfest á árlegum fundi kínverska Alþýðuþingsins sem farið hefur fram í höfuðborginni Beijing síðustu daga. Forsetaembættið í Kína er í raun valdalítið embætti en Xi hefur engu að síður tekist að verða nær einráður í landinu síðustu árin en hann er einnig aðalritari kínverska kommúnistaflokksins og formaður hermálanefndar flokksins.
Ekki var búist við öðru en að þingið myndi staðfesta þriðja kjörtímabil Xi á forsetastóli og raunar mun það vekja meiri athygli á næstu dögum hver verður útnefndur forsætisráðherra, sem yrði þá í raun næstráðandi í ríkinu.
Fráfarandi forsætisráðherrann Li Keqiang var einmitt talinn sá sem gæti skákað Xi Jinping í valdatafli kínverska kommúnistaflokksins en nú er ljóst að hann er á útleið.