Körfubolti

Grátlegt tap hjá Tryggva og félögum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason átti frábæran leik í tapi Zaragoza í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason átti frábæran leik í tapi Zaragoza í kvöld. Vísir/Getty

Tryggvi Snær Hlinason og leikmenn Zaragoza máttu þola grátlegt tap gegn Monbus Obra í spænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í kvöld.

Liðsmenn Zaragoza áttu möguleika á því að lyfta sér örlítið frá fallbaráttunni með sigri í kvöld en lið Monbus Obra var um miðja deild. Leikið var á heimavelli Zaragoza og var leikurinn jafn allan fyrri hálfleikinn.

Gestirnir voru þó skrefinu á undan og leiddu 29-25 í hálfleik, ótrúlega lágt skor í leiknum.

Sóknir liðanna vöknuðu þó í síðari hálfleik og þá sérstaklega hjá gestunum. Þeir unnu þriðja leikhlutann með tólf stigum og voru því sextán stigum yfir áður en síðasti leikhlutinn hófst, erfið staða heimamanna.

Liðsmenn Zaragoza bitu þó heldur betur í skjaldarrendur. Þegar tvær og hálf mínúta voru eftir munaði ennþá tíu stigum á liðunum en þá kom sprettur hjá Zaragoza. Þeir minnkuðu muninn í eitt stig þegar mínúta var eftir og fengu tækifæri til að komast yfir.

Gestirnir komust í 78-75 þegar rúmar tuttugu sekúndur voru á klukkunni en heimamenn minnkuðu muninn á ný í eitt stig. Monbus Obra settu svo niður eitt stig af vítalínunni og Zaragoza hélt í sókn tveimur stigum undir með tólf sekúndur eftir.

Þegar ein sekúnda lifði leiks var síðan dæmd villa á Monbus Obra og Christan Mekowulu, sem sótt hafði villuna með því að ná í sóknarfrákast, fór á línuna. Hann skoraði úr fyrra vítinu en klikkaði hins vegar á því seinna og grátlegt eins stigs tap Zaragoza því staðreynd.

Lokatölur 79-78 og Monbus Obra fagnaði sætum sigri. Tryggiv Snær spilaði í rúmar tólf mínútur í dag, skoraði fjögur stig og tók fjögur fráköst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×