Fótbolti

Þrumaði boltanum upp í stúku þótt lið hans væri að vinna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo uppskar gult spjald fyrir að taka pirring sinn út á keppnisboltanum.
Cristiano Ronaldo uppskar gult spjald fyrir að taka pirring sinn út á keppnisboltanum. Mohammed Saad/Getty Images

Cristiano Ronaldo, leikmaður Al Nassr í Sádi-Arabíu var allt annað en sáttur þegar flautað var til hálfleiks í bikarleik liðsins gegn Abha. Litlu máli skipti að Al-Nassr væri 2-0 yfir og sigurinn næsta vís.

Hinn 38 ára gamli Ronaldo skoraði þrennu þann 25. febrúar en hafði ekki skorað í tveimur leikjum í röð þegar kom að leik Al-Nassr og Abha. Það var á þriðju mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks sem boltinn féll fyrir fætur portúgalska framherjans sem óð af stað í skyndisókn.

Honum til mikillar undrunar, og gríðarlegs pirrings, þá ákvað dómarinn að flauta til hálfleiks. Ronaldo, sem er fyrirliði Al-Nassr, var vægast sagt brjálaður yfir ákvörðun dómarans að flauta fyrri hálfleikinn af þegar hann var enn á sínum eigin vallarhelmingi.

Fyrirliðinn baðaði út höndunum, tók boltann upp og þrumaði honum langleiðina upp í stúku. Fékk Ronaldo gult spjald að launum.

Leiknum lauk með 3-1 sigri Al-Nassr sem er þar með komið áfram í Konungsbikarnum. Ronaldo skoraði hvorki né lagði upp í leiknum og var tekinn af velli á 87. mínútu.

Ronaldo hefur skorað 8 mörk í 7 deildarleikjum í Sádi-Arabíu, þar á meðal eina þrennu og eina fernu, ásamt því að gefa 2 stoðsendingar. Í tveimur leikjum í Ofur- og Konungsbikarnum hefur honum hins vegar mistekist að skora.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×