„Það var helvíti ljúft að vinna þennan leik,“ sagði Máté Dalmay ánægður með fyrsta sigur Hauka í mars.
Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en Haukar tóku yfir leikinn á síðustu þremur mínútum og unnu að lokum þrettán stiga sigur.
„Þetta byrjaði á því að Daniel [Mortensen] fékk í hnéð og byrjaði ekki seinni hálfleik og þá fóru þeir sem voru inn á að missa trúna. Síðan duttu Norbertas Giga og Orri Gunnarsson í villu vandræði. Hrós á strákana sem spiluðu miklu fleiri mínútur í kvöld heldur en þeir höfðu verið að gera.“
„Stjarnan kom ekki með neitt áhlaup heldur fóru þeir að saxa á forskotið hægt og rólega þegar við vorum orðnir litlir inn á. Stjarnan var ekkert að skjóta okkur í kaf en mér leið ekkert illa þegar Stjarnan komst yfir. Ég var með laskað lið en það var mikill karakter hjá okkur að vinna leikinn í brakinu þegar þetta var að sigla frá okkur.“
Máté Dalmay sagði frá því að Darwin Davis spilaði fárveikur og hann hefur verið veikur í langan tíma en spilaði og gerði 29 stig.
„Darwin Davis spilaði fárveikur þriðja leikinn í röð. Hann fer til læknis á morgun og fær þriðju sýklalyfin sín og vonandi verður fundið út úr því hvað í andskotanum er að honum.“
Það eru aðeins tveir leikir eftir af deildarkeppninni og Máté sér fyrir sér að lenda í þriðja sæti þegar mars lýkur.
„Við stefnum á þriðja sæti þar sem við ætlum að vinna síðustu tvo leiki okkar. Keflavík vann Hött áðan og eiga ÍR og Njarðvík í síðustu tveimur leikjunum. Keflavík mun tapa öðrum og við klárum okkar leiki og endum í þriðja sæti,“ sagði Máté Dalmay að lokum.