Umboðsmaður Alþingis sendi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í liðinni viku bréf vegna ákvörðunar Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra að auka vopnaburð lögreglu án þess að bera málið upp í ríkisstjórn. Niðurstaða umboðsmanns var sú að Jón hafi brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum.
Katrín sagðist svo í samtali við fréttastofu fyrir helgi sammála því mati umboðsmanns að ræða hefði átt rafbyssuvæðingu lögreglunnar á ríkisstjórnarfundi áður en reglugerð sem heimilaði notkun vopnanna var gefin út af dómsmálaráðherra.
Málið hefur síðan verð rætt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og verður rætt á Alþingi í dag þar sem Katrín situr fyrir svörum vegna málsins.
Arndís Anna Katrínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata, segir að í stjórnarskrá komi fram hvernig ríkisstjórnin eigi að vinna. „Í raun kemur fram í þessu bréfi að sú grein [stjórnarskrárinnar] hafi verið brotin þó að það sé vitanlega ekki í verkahring umboðsmanns að skera úr um það heldur dómstóla.“
Arndís Anna er málshefjandi umræðunnar á þingfundi sem hefst klukkan 15:30. Stjórnarskrárákvæðið sem umboðsmaður telur hafa verið brotið sé til þess gert að tryggja fagleg störf ríkisstjórnar.
„Það er bara ekkert sem bendir til að það sé þannig sem hafi verið unnið í þessu máli. Það er auðvitað alvarlegra mál heldur en hvað varðar þessa rafbyssuvæðingu sem sannarlega er nógu alvarlegt mál út af fyrir sig. Hann nýtir í raun engar leiðir sem stjórnnvöld hafa til að tryggja samráð og faglega vinnu og undirbúning að málum. Ég mun spyrja forsætisráðherra út í það hvort hún telji rétt að bregðast við þessari athugun umboðsmanns. Ef já, hvernig? Ef ekki, þá hvers vegna ekki,“ segir Arndís Anna Kristínardóttir gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.