Reglan sem gildir í dag kveður á um að hvert lið megi aðeins tefla fram einum leikmanni utan EES hverju sinni er leikklukkan gengur og tveimur erlendum leikmönnum sem koma frá löndum innan EES. Það þýðir að eins og staðan er núna verða liðin að stilla upp í það minnsta tveimur Íslendingum á hverjum tímapunkti í leiknum.
Reglan sem mun taka gildi frá og með næsta tímabili segir hins vegar að nú megi liðin hafa eins marga erlenda leikmenn frá löndum innan EES og þau vilja inni á leikvellinum í einu. Reglan um að aðeins megi hafa einn leikmann utan EES á vellinum gildir þó enn.
15. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót verður því svohljóðandi:
Í öllum deildum meistaraflokka karla og kvenna gildir að á leikvelli hverju sinni má mest vera einn leikmaður í hvoru liði sem ekki er ríkisborgari EES ríkis á meðan leiklukka gengur. Í bikarkeppni og meistarakeppni KKÍ gilda sömu reglur og í öllum deildum.
Erlendur ríkisborgari utan EES ríkis sem hefur búið á Íslandi samfellt í þrjú ár eða meira telst ekki sem erlendur leikmaður í reglugerð þessari og skal hann framvísa nauðsynlegum gögnum til skrifstofu KKÍ þar um. Staðfestingu KKÍ þarf til þess að leikmaður teljist með íslenskum/EES ríkisborgurum. Sá sem hefur leiktíðina sem erlendur leikmaður utan EES ríkis telst sem slíkur út leiktíðina og skal miða við fyrsta leik í móti á vegum KKÍ (Íslandsmót, bikarkeppnir eða önnur mót/leikir á vegum KKÍ), nema að fenginni undanþágu stjórnar KKÍ.
Brjóti félag gegn grein þessari telst félag hafa notað ólöglegan leikmann og skal sæta viðurlögum samkvæmt 8. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót.
Þegar þessi nýja regla tekur gildi á næsta tímabili geta félögin því stillt upp liði sem er einungis skipað erlendum leikmönnum á kostnað íslenskra leikmanna.