Gershkovic var handtekinn af rússneskum leyniþjónustumönnum í Katrínarborg í mars. Hann var sakaður um að reyna að komast yfir leyniskjöl um rússneska vopnaverksmiðju. Hann er fyrsti bandaríski blaðamaðurinn sem er handtekinn í Rússlandi fyrir meintar njósnir frá falli Sovétríkjanna.
Fjöldi blaðamanna var í dómssal í Moskvu þegar Gershkovic kom fyrir dómara og krafðist þess að vera látinn laus í dag. AP-fréttastofan segir að hann hafi virst yfirvegaður og jafnvel brosað á köflum inni í glerbúri sakbornings.
Dómari hafnaði áfrýjun blaðamannsins og úrskurðaði hann í áframhaldandi gæsluvarðhald til að minnsta kosti 29. maí. Gershkovic gæti átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsisvist verði hann fundinn sekur um njósnir.
Rússnesk stjórnvöld hafa þegar látið í veðri vaka að þau gætu haft fangaskipti á Gershkovic eftir að réttað verður yfir honum. Gagnrýnendur stjórnvalda í Kreml halda því fram að Gershkovic hafi gagngert verið handtekinn í því skyni.