Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir af brúnni, sem verður eitt tignarlegasta mannvirki landsins, með brúarstöpli sem slagar upp í hæð Hallgrímskirkju.
Í dag rann út frestur til að óska eftir þátttöku í alútboði um smíðina og reyndust umsækjendur fimm talsins: Hochtief, Þýskalandi; IHI, Japan; Ístak, Per Aarsleff og Freyssinet, Reykjavík; Puentes y Calzadas, Spáni; og ÞG verktakar ehf., Reykjavík.
![](https://www.visir.is/i/03016F61795F27CCF6A0B87D838850720847F78AD400DC0D1D6DDB82AF179728_713x0.jpg)
Verkefnisstjóra Vegagerðarinnar líst ljómandi vel á keppnishópinn.
„Við fengum þarna fimm aðila, bæði erlenda og innlenda, sem við erum bara spennt að sjá. Við erum ekki búin að skoða nákvæmlega hvað er á bak við hvert og eitt fyrirtæki. En erum bara spenntir að skoða það. Og þetta lítur út fyrir að vera góðir aðilar,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, verkefnisstjóri Ölfusárbrúar.
![](https://www.visir.is/i/3F20CB1AFF2A1748099484CB6ED06A099D5EDFCBC65A61A54FB6B9A1B1B0658E_713x0.jpg)
Alþjóðlegur áhugi á brúarsmíðinni vekur athygli.
„Þetta verkefni er þannig. Brúin er alveg á þann mælikvarða. Við líka óskuðum eftir þekkingu og reynslu af svona sambærilegum mannvirkjum. Þannig að það er eðlilegt að menn leyti sér samstarfs líka erlendis við slíkar framkvæmdir.“
![](https://www.visir.is/i/3B6DC40933261C3F23BB8065A0D5E8181FC82D70B2269BF8B2A46F3FA9E5E5DD_713x0.jpg)
Framundan er að meta hæfi umsækjenda og er stefnt að því að bjóða verkið út í sumar.
„Og í framhaldi af tilboði og samningaviðræðum, sem tekur einhverja mánuði, þá væntum við þess að við séum komin með verksamning fyrir lok árs,“ segir Guðmundur Valur.
Þar sem þetta er alútboð er verktaka ætlað að fullhanna brúna áður en smíðin getur hafist en honum er einnig ætlað að leggja vegi að brúnni, gatnamót og undirgöng. Áætlað að er að verkið taki tvö og hálft til þrjú ár.
![](https://www.visir.is/i/32148CEF31623E036FF0CF31C5BBCA4733BCDE1457AF20EA6174B544CE459F37_713x0.jpg)
En hvenær verður brúin tilbúin?
„Það er 2026, 2027. Það er svona það sem við erum að vinna með,“ svarar verkefnisstjóri Ölfusárbrúar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: