„Þarna er Sumarrós, svo Hrafnöld og hérna kemur Flatkaka. Mamma hennar heitir Skonsa og amma hennar heitir Píta,” segir Belinda Margrét Birkisdóttir kúahirðir á Móeiðarhvoli í Rangárþingi eystra en ótrúlegt en satt, allar kýrnar í fjósinu 150 talsins eru með nöfn, sem Belinda á heiðurinn af.
„Þetta er bara hobbí hjá mér, sem hefur verið síðan ég var lítil þegar ég var að hjálpa mömmu að merkja kálfana. Þá hef ég verið að skella nafni á þá af og til og endaði að kvígurnar og kýrnar eru allar með nafn. Mér finnst nú skemmtilegra að kalla þær með nafni en eitthvað númer, það er ekki flóknara en það,” segir Belinda.
En hvernig finnur hún öll þessi nöfn?
„Stundum er skemmtileg saga á bak við það, stundum er það karakterinn og stundum eru það foreldrarnir.”
Og það kemur stundum fyrir að Belinda er með ákveðin þema á nöfnunum.
„Já, einu sinni tók ég eyjar eins og Surtsey, Sikiley og eitthvað svoleiðis og síðan höfuðborgir líka þannig að það var Osló og Kúala Lúmpúr til dæmis."
Þetta er ótrúlega skemmtilegt hjá þér að þú skulir nenna þessu?
“ Já, það er mikið sem maður leggur á sig,” segir Belinda hlægjandi.

Og áttu alltaf nóg af nöfnum í pokahorninu?
„Já, já, það eru margar, sem ég er að bíð eftir að gefi mér kvígu til að skella nöfnum á.”
En hvað með nautin og nautkálfana, eru nöfn þar líka?
„Nei, ég hef ekki fengið það í gegn að skýra nautin, það er kúanafnanefnd, þetta tekur því víst ekki að skíra öll nautin og kýrnar frá bara íslenska nöfn, þær fá ekki ensk nöfn og þær fá ekki karlanöfn, ég bíð eftir því að geta skýrt einna kúnna Skarphéðinn,” segir Belinda brosandi.
