Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið er yfir verkefni embættisins frá klukkan fimm í gær til klukkan fimm í nótt.
Í gær barst lögreglunni tilkynning um vopnað rán þar sem maður ógnaði gangandi vegfaranda með hníf og krafði hann um fjármuni. Ekki kemur fram hvort ræninginn hafi fundist en málið er í rannsókn hjá lögreglu.
Tilkynnt var um eignaspjöll við grunnskóla og íbúðarhúsnæði í Vesturbænum. Maður hafði skvett rauðum matarlit á íbúðarhúsnæðið en ekki kemur fram hver staða málsins sé.
Lögreglan gaf ökumanni merki um að stöðva bifreið sína í nótt en maðurinn gerði það ekki og ók gegn rauðu ljósi. Að lokum stöðvaði hann bílinn en reyndi að hlaupa frá lögreglu. Náðist hann stuttu síðar og er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Var hann því vistaður í fangageymslu þar til unnt er að ræða við hann.
Tilkynnt var um eina líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur í nótt og í umdæmi lögreglustöðvar 2, sem sér um Hafnarfjörð og Garðabæ, var tilkynnt um umferðarslys þar sem maður hafði ekið bifreið sinni á nokkrar bifreiðar. Er hann grunaður um akstur undir áhrifum og gisti fangageymslu í nótt.