Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar síðastliðinn, þess efnis að greiða ætti lögreglumönnunum samkvæmt samkomulaginu frá 2019.
Málið komst fyrst í hámæli tveimur árum áður, þegar fram kom í svörum ráðherra við fyrirspurn þingmanns að föst mánaðarlaun tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna hefðu hækkað um 48 prósent að meðaltali með umræddu samkomulagi.
Þá fól samkomulagið í sér aukin lífeyrisréttindi.
Það var Haraldur Johannessen sem var ríkislögreglustjóri árið 2019 en þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við í mars 2020 fékk hún lögfræðiálit í hendur þess efnis að Haraldur hefði ekki haft heimild til að semja við lögreglumennina um umræddar kjarabætur.
Þegar Sigríður freistaði þess að vinda ofan af samkomulaginu höfðuðu fjórmenningarnir; Árni Elías Albertsson, Ásgeir Karlsson, Óskar Bjartmarz og Guðmundur Ómar Þráinsson, mál gegn ríkislögreglustjóraembættinu.
Í ákvörðun hæstaréttar að taka málið fyrir segir að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi, meðal annars um svigrúm forstöðumanna ríkisstofnana til að breyta launakjörum embættismanna. Beiðni um áfrýjunarleyfi sé því samþykkt.