Í tilkynningu frá Play kemur fram að félagið verði með áætlunarferðir fimm sinnum í viku til Amsterdam í sumar en að í lok októbermánaðar taki við áætlun með daglegum ferðum. Segir að það muni falla vel að tengiflugi félagsins til áfangastaða í Norður-Ameríku.
„Schiphol-flugvöllur er ein helsta samgöngumiðstöð Evrópu og því munu þessar daglegu ferðir næsta vetur frá Amsterdam styrkja leiðakerfi Play gríðarlega mikið. Það fer ekki aðeins fjöldi farþega í gegnum Schiphol flugvöll því umsvifin með vöruflutninga eru þar mikil sem mun auka möguleika Play á að afla hliðartekna með vöruflugi til muna,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Birgi Jónssyni forstjóra að flugfélög bíði í röðum eftir því að komast að á Schiphol-flugvelli og því sé það einstakt afrek fyrir Play að fá þar lendingarleyfi og geta sett dagleg flug í sölu næsta vetur. „Flugvöllurinn er sá fjórði stærsti í Evrópu og því mikilvæg viðbót í okkar leiðakerfi,“ segir Birgir.
Alls verða háttí fjörutíu áfangastaðir í leiðakerfi Play í ár, þar af fimm áfangastaðir í Norður-Ameríku.