Samgönguáætlun er það verkfæri sem þingið hefur til að ráðstafa þeim fjármunum sem fara til framkvæmda á því sviði. En núna er fyrirséð að hún mun ekki birtast í þinginu þetta vorið. Hvorki þingmenn né viðkomandi þingnefnd fá því tækifæri til að fjalla um áætlunina að sinni.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra áformar í staðinn að kynna hana í samráðsgátt stjórnvalda, hugsanlega í næstu viku. Hún verði síðan lögð fyrir Alþingi í haust.
„Upphaflega stóð til að fá hana um áramót. Og það hefði verið mjög gott að fá hana til umfjöllunar í þinginu fyrr því þetta eru allt framkvæmdir sem er beðið eftir,“ segir Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, í viðtali í fréttum Stöðvar 2:
Áætlunin hefur þó verið kynnt í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna.
„Ég held að almennt séð verði ekkert margir sáttir með plaggið. Það skortir smá á fjármögnunina. Við erum komin í innviðaskuld og því eru mörg verkefni sem bíða. Það er ekki hægt að uppfylla þau öll.“
Vilhjálmur telur að helstu útboð ættu ekki að tefjast.
„Því við erum með gildandi samgönguáætlun.
Það sem ég held að hafi kannski helst valdið töfum á útboðum er fjármögnun. Okkur hefur bara ekki tekist að fjármagna vegakerfið nógu vel. Það á eftir að innleiða nýja aðferð til þess að bregðast við minnkandi tekjum af umferð og annað slíkt,“ segir Vilhjálmur.

Jarðgöng eru venjulega langstærstu framkvæmdir á samgönguáætlun og samkvæmt gildandi áætlun eiga Fjarðarheiðargöng að vera næst á dagskrá. En verður staðið við það?
„Ég segi bæði að hvort sem það sé Fjarðarheiðargöng eða allar stórar framkvæmdir, auðvitað þurfa þær alltaf að vera í sífelldri endurskoðun þangað til að útboðið kemur. Af því að það bara á við allar fjárfestingar hjá öllum. Endanleg stefnumörkun mun ekki liggja fyrir fyrr en Alþingi hefur samþykkt næstu samgönguáætlun,“ svarar þingnefndarformaðurinn.

Útboði Fjarðarheiðarganga hefur ítrekað verið seinkað.
-Vantar bara peninga í svona stórt verk?
„Já, það er bara staðan. Okkur vantar fjármögnun.
Ég tel að það sé tvennt sem tefji samgönguframkvæmdir á Íslandi í dag. Það eru skipulagsmál og fjármögnun.“
Það þurfi nýtt gjaldakerfi.
„Við höfum bara verið alltof lengi í að bregðast við minnkandi tekjum af umferð og að breyta um gjaldakerfi. Við þurfum að hraða því.“
-Og fyrr en þetta er komið á hreint, þá verða engin ný göng boðin út?
„Ég geti ekki séð það, nei,“ svarar formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.