Frá þessu greinir Heimildin og vitnar í skrifleg svör starfandi forstjóra Ríkiskaupa.
Vísir hafði áður greint frá því að til stæði að kaupa 120 rafbyssur til að byrja með en ekki fengust upplýsingar um kostnað við kaupinn þar sem markaðskönnun stóð þá yfir.
Aðeins eitt fyrirtæki gaf sig fram við umrædda könnun Ríkiskaupa á Evrópska efnahagssvæðinu varðandi fyrirhuguð rafbyssukaup. Um er að ræða fyrirtækið Landstjörnuna ehf, sem Heimildin segir vera með umboðið fyrir rafbyssur frá Axon.
Axon hét áður TASER International og er einn stærsti framleiðandi rafbyssa í heiminum.
Heimildin hefur eftir Gunnari Herði Garðarssyni, upplýsingafulltrúa Ríkislögreglustjóra, að viðræður standi yfir við Landstjörnuna en ekkert sé fast í hendi. Huga þurfi að því meðal annars hvernig þjálfun lögreglumanna verði háttað og hvort semja þurfi við annan aðila en Landstjörnuna vegna þess.