Enski boltinn

Enn selur Chelsea til Sádi Arabíu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Edouard Mendy er genginn til liðs við Al Ahli í Sádi Arabíu.
Edouard Mendy er genginn til liðs við Al Ahli í Sádi Arabíu. Vísir/Getty

Chelsea hefur selt markvörðinn Edouard Mendy til Al Ahli í Sádiarabísku deildinni. Mendy er þriðji leikmaðurinn sem yfirgefur Chelsea til að færa sig yfir til olíulandsins.

Síðustu daga hefur verið beðið staðfestingar á félagaskiptum Mendy en þau hafa legið í loftinu í dágóðan tíma. Mendy kom til Chelsea frá franska liðinu Rennes árið 2020 og var lykilmaður í liði Chelsea sem vann Meistaradeildina tímabilið 2020-21.

Mendy missti sæti sitt til Kepa Arrizabalaga og vermdi að mestu leyti varamannabekkinn hjá Lundúnaliðinu á síðasta tímabili sem fer í sögubækurnar sem eitt það allra slakasta hjá Chelsea í langan tíma.

Mendy er fjórði leikmaðurinn sem yfirgefur Chelsea síðan tímabilinu á Englandi lauk. Í gær var tilkynnt um kaup Manchester City á Króatanum Mateo Kovacic og þá hafa þeir N´golo Kanté og Kalidou Kouli­ba­ly gengið til liðs við félög í Sádi Arabíu líkt og Mendy gerir nú.

Á dögunum var tengslum fjárfestingasjóðs Sádi Arabíu og Chelsea velt upp í grein hér á Vísi og spurt hvort Sádi Arabía væri einfaldlega að fjármagna Chelsea. Ljóst er að spurningum hvað þetta varðar mun ekki fækka á næstunni.

Ljóst er að miklar breytingar verða á liði Chelsea á næstu leiktíð. Mauricio Pochettino hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri liðsins og leikmannaveltan nú þegar orðin töluverð.


Tengdar fréttir

Er Sádi-Arabía að fjár­magna Chelsea?

Eftir félagaskipti síðustu daga er eðlilega að margur velti fyrir sér hvort PIF, fjárfestingarsjóður Sádi-Arabíu, sé að fjármagna enska knattspyrnufélagið Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×