Hið árlega Orkumót hófst formlega í dag og stendur út laugardag en þar keppa strákar í 6. flokki karla í knattspyrnu. Heildarfjöldi keppenda, þjálfara og fararstjóra nemur um 1.200 þetta árið og fylgir þeim hið minnsta álíka fjöldi foreldra.
„Þetta er bara íslenskt sumar í hnotskurn. Þetta er bara það sem við búum við,“ segir Sigríður Inga Kristmannsdóttir, mótstjóri Orkumótsins. Nokkuð hafi verið um hvelli í Herjólfsdal seinni partinn í gær en fljótlega byrjað að lægja.
„Það er bara eins og veðrið er í Vestmannaeyjum. Það kemur logn og svo kemur bara sprenging, það gengur svona í bylgjum. Ég held að fólk átti sig ekki alveg á því og fólk sem þekkir ekki svona veður eins og við búum við.“
Öllu vön í Vestmannaeyjum
Sigríður segir að Eyjamenn séu öllu vanir þegar veðurguðirnir séu annars vegar. „Þetta er eiginlega bara svona klassískt vetrarveður í lok júní,“ bætir hún við og hlær.
Hún á von á skemmtilegu og fjörugu móti um helgina eftir þessa kröftugu byrjun.
„Það er bara komið fullt af peyjum hérna til að eiga góða daga, spila fótbolta, hafa gaman og skemmta sér. Ég á ekki von á öðru en það takist vel.“
Sigríður bindur nú vonir við að rokið sé afstaðið og veðrið muni leika við þátttakendur fram á sunnudag. Mótið rúllar vel af stað og hófust leikir á öllum völlum nú í morgun.
„Það er pínu blautt en það er ekki eins og það sé alltaf sól og blíða í Vestmannaeyjum. Það er fínt að byrja þetta svona og svo endum við í blíðu á laugardaginn. Það er alltaf betra að enda í blíðu heldur en rigningu og roki,“ segir Sigríður hress en þegar Vísir náði af henni tali voru þátttakendur önnum kafnir við að gæða sér á sérstakri afmælisköku í tilefni þess að fótboltamótið fer nú fram í fertugasta sinn.