Vestfirðingar héldu að þeir væru farnir að sjá til sólar í samgöngumálum þegar byrjað var á endurnýjun vegarins yfir Dynjandisheiði fyrir þremur árum, á brúargerð yfir Þorskafjörð fyrir tveimur árum og á vegagerð um Teigsskóg í fyrravor. Fjallað var um boðaðan niðurskurð í þessari frétt Stöðvar 2:
Rifjað var upp svar verkefnisstjóra Vegagerðarinnar, Sigurþórs Guðmundssonar, fyrir tveimur árum þegar spurt var hvenær Vestfjarðahringurinn yrði tilbúinn með bundnu slitlagi:
„Við erum sem sagt að horfa til þess að vera búnir 2024,“ svaraði Sigurþór í frétt Stöðvar 2 þann 3. nóvember 2021. Sem sagt á næsta ári átti þessum verkum að ljúka.
En ekkert bólar á útboðum næstu verkáfanga, hvorki á Dynjandisheiði né um Gufudalssveit, enda er samgönguáætlunin sem kynnt var rétt fyrir síðustu þingkosningar á leið í pappírstætarann. Í staðinn er innviðaráðherrann búinn að kynna nýja samgönguáætlun í samráðsgátt stjórnvalda.

Viðbrögð Fjórðungssambands Vestfirðinga í umsögn eru að lýsa vonbrigðum og segir sambandið þessa nýju áætlun þýða að bæði Dynjandisheiði og Gufudalssveit seinki um þrjú ár, eða til ársins 2027.
Ennfremur sé annarri vegagerð á Vestfjörðum, sem boðuð var á árunum 2025 til 2028, frestað um fimm ár.
Þá segir Fjórðungssambandið óásættanlegt að jarðgangaframkvæmdir á Vestfjörðum tefjist um 15 til 25 ár og segir ekki boðlegt að umfang einnar framkvæmdar, Fjarðarheiðarganga á Austfjörðum, takmarki upphaf annarra verkefna.

Í Árnesheppi segir oddvitinn, Eva Sigurbjörnsdóttir, að íbúar séu í áfalli yfir því að uppbygging vegarins um Veiðileysuháls, sem átti að hefjast á næsta ári, sé slegin af. Og við getum endursýnt viðtalið við hana fyrir fimm árum þegar þá var enn einu sinni verið að fresta þessum vegarbótum, sem upphaflega áttu að hefjast árið 2009.
„Þetta er bara ömurlegt. Það liggur við að maður missi svolítið kjarkinn. Og þetta eru algjörlega ömurleg skilaboð frá yfirvöldum,“ sagði Eva í viðtali á Stöð 2 þann 8. nóvember árið 2018, sem sjá má hér:
Í frétt Stöðvar 2 fyrir síðustu jól var rifjað upp að undanfarna áratugi virðist það hafa verið reglan að framlög sem heitið er til vegagerðar í samgönguáætlun, áður vegaáætlun, rétt fyrir þingkosningar, eru skorin niður í fjárlögum eftir kosningar. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra afsakaði þá niðurskurð vegna ársins 2023 með því að slá hafi þurft á þensluna en sagði að stærstu verkin á Vestfjörðum, í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði, myndu „halda sínum takti“.