Breiðablik sigraði Shamrock Rovers frá Írlandi samtals 3-1 í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu og hefur nú tryggt sér umspilssæti í Sambandsdeild Evrópu hið minnsta. Liðið getur hins vegar farið enn lengra í Meistaradeildinni en Danmerkurmeistarar FCK standa í vegi fyrir þeim.
„Þetta er gott lið með góða leikmenn, stór klúbbur með mikla sögu þannig það gerist ekki mikið stærra en þessir leikir,“ sagði Jason Daði um mótherja morgundagsins.
Jason Daði og Orri Steinn Óskarsson, leikmaður FCK og sonur Óskars Hrafns Þorvaldssonar - þjálfara Blika, þekkjast ágætlega. Þá er Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson sömuleiðis leikmaður danska stórliðsins.
„Það verður gaman að mæta þeim. Erum fínustu félagar en ég hef ekkert heyrt í honum (Orra) en hann er örugglega bara spenntur fyrir því.“
Um leik morgundagsins
„Við nálgumst þetta eins og við gerum flesta leiki. Vídeófundur og svo undirbúa menn sig eins og þeir gera alltaf, það þýðir ekkert annað.“
„Held að við ætlum bara að hlaupa yfir þá eins og við reynum að gera í hverjum einasta leik, það verður bara að vera markmiðið líka.“
„Held það hjálpi okkur klárlega að spila á heimavelli, á gervigrasi sem þeir eru kannski ekki vanir að spila á. Verðum að nýta okkur það. Það verður gaman að hafa fulla stúku og alvöru stuðning,“ sagði Jason Daði að endingu.
Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér að ofan.